Sjúklingurinn hefur svo sannarlega ekki átt sjö dagana sæla þessa vikuna. Hlaupabólan mætti á sunnudaginn og var aldeilis ekki af vægara taginu. Heilsan var slæm á mánudaginn, versnaði á afmælisdaginn og var líka ömurleg á miðvikudag. Eins og hún orðaði það sjálf þá var þetta versti sjúkdómur sem hún hefur fengið á ævinni og orðið hata hefur verið henni framarlega á tungu. Síðan hefur ástandið hægt og bítandi lagast. Daman lítur samt enn út eins og hún sé með Stóru Bólu og henni hugnast ekki að mæta í skólann í svona ásigkomulagi.
Afmælisdagurinn var annars tekinn snemma, aðallega vegna þess að Skottan vaknaði klukkan sex og vakti stóru systur. Ég skreið á fætur og klukkutíma síðar var ýtt við pabbanum og sungið fyrir afmælisbarnið, fyrst á íslensku, síðan á dönsku, litlu systur til mikillar gleði. Hún fékk svo slatta af pökkum, grjónastól frá foreldrunum og mjög langþráðan rafmagnstannbursta frá litlu systur auk ýmissa pakka frá Íslandi og Svíþjóð. Aðal pakkinn frá Svíþjóð kom samt ekki fyrr en um kvöldið, Anna og Martin höfðu ákveðið að verða við aðalafmælisóskinni um að koma (þrátt fyrir bágborið ástand). Að öðru leyti var afmælisdagurinn frekar dapur, hún hafði ekki einu sinni lyst á að borða svo það var ekki hægt að gera vel við hana að neinu leyti. Þeir sem lögðu í að heyra í henni á Skype fengu líka frekar súran viðmælanda.
Miðvikudagurinn var líka vondur og kannski það versta að nætursvefninn hafði verið af skornum skammti. Ég hafði annars keypt eitthvað forláta sprey, auk þess sem við gáfum henni ofnæmistöflu sem átti að hjálpa við kláðanum en ekkert hafði neitt að segja. Við tókum því rólega hér heima, tókum reyndar á móti Steina bróður Önnu systur og stráknum hans, þeir búa hér í tæplega tveggja tíma fjarlægð. Þeim systkinum reiknaðist til að hafa ekki sést 18 ár, svo það var heldur betur kominn tími til.
Á fimmtudag fór ég í skólann, tímdi ekki að skrópa því við vorum að ræða Bróður minn Ljónshjarta. Það var skemmtilegur tími, þótt ég legði lítið til málanna. Fékk reyndar hugljómun en það var í lok tímans svo ég var ekkert að bera það undir aðra, en ég fór sem sagt allt í einu að spá í Kötlu útfrá eldfjallinu okkar og spá í hvort það væri ekki samhengi þar á milli. Gestirnir höfðu sjálfir ofan af fyrir sér þennan daginn með því að skoða helstu kirkjur Árósa, um kvöldið pössuðu þeir svo dæturnar og við hjónin fórum í bíó, í fyrsta skiptið sem við förum út saman að kvöldlagi síðan í júlí á síðasta ári.
Ég sinnti gestunum síðan lítillega í gær, við fórum í bæinn og rápuðum í búðir, þar kemur þekking mín að góðum notum og þeir náðu að gera alls konar góð kaup, ég reyndar líka, þeim til samlætis. Vorum í yndislegu vorveðri og nutum lífsins. Anna og Martin yfirgáfu okkur síðan í morgun og við höfum tekið því afar rólega. Skottan er til dæmis komin á þá skoðun að það sé alveg nóg að sofa til sex, þannig hafa allir dagar vikunnar verið, en það sem meira er, þá finnst henni líka alveg nóg að taka seinnipartslúr annan hvern dag og í dag var bara hvíldardagur en ekki svefndagur.
Sjúklingurinn er að skríða saman en er að verða full góðu vanur að mati móðurinnar og heimtar þjónustu með alla hluti auk þess að vilja til skiptis horfa á sjónvarp og vera í tölvu/Nintendo. Sem betur fer fékk hún bækur í afmælisgjöf og hefur hlýtt því að lesa líka, auk þess sem ég var búin að fara á bókasafnið og taka nokkrar bækur fyrir hana. Ein þeirra varð svo meira fyrir mig, fyrsta bókin í seríu eftir höfund Önnu í Grænuhlíð. Ég datt alveg í hana og bíð núna eftir að nálgast næstu tvær og sá þar að auki að það hefur verið gerð sjónvarpssería eftir henni. Það er svo sem ekki gríðarlegur munur á Emily og Önnu, alls konar kunnugleg stef en ég læt það ekki á mig fá. Því miður eru bækurnar ekki fáanlega fyrir Kindil, annars hefði ég umsvifalaust keypt þær.