Af sunnudagsrúntum og páskastemmingu

Ég gleymdi alltaf að segja frá einum yndislegum sunnudagsrúnti sem við tókum í síðasta mánuði. Ég hafði rekist á frásögn um hverfi hér í Árósum sem heitir Finnebyen. Þannig var að eftir seinni heimstyrjöld var gríðarlegur húsnæðisskortur hér og sveitarfélagið festi kaup á 122 timburhúsum frá Finnlandi, sem voru 56 fermetrar að stærð 🙂 . Í dag er reyndar búið að byggja við flest ef ekki öll húsin. Upprunalega voru þau öll máluð í gulum, rauðum, grænum eða bláum lit. Mig hafði langað til að skoða þetta hverfi frá því að ég las um það svo við ákváðum að gera loks ferð. Það er skemmst frá því að segja að þetta er dásamlega krúttlegt hverfi, mikið lagt upp úr sérstöðunni og húsunum vel við haldið.

Í framhaldinu fórum við og keyrðum í gegnum þorp sem við sáum í þyrlufluginu, það er agnarlítið og nánast orðið samvaxið við Árósa en stendur samt enn eitt og sér. Þetta var líka gjörsamlega sætt, alveg nákvæmlega eins og ég hefði verið til í að búa í. Við enduðum svo rúntinn á því að fara upp að alræmdum stúdentagörðum, Skjoldhøj kollegiet, sem er byggt á 8. áratugnum, meðan það þótti enn fínt að henda upp steinsteypuklumpum. Þarna búa fyrst og fremst erlendir stúdentar því það vill enginn annar búa þar. Það er stanslaust verið að brjótast inn og hjá sveitarfélaginu er rifist um hvort á að rífa bygginguna niður eða gera hana upp, það er kominn tími á viðhald, ekkert verið gert í 40 ár en það er varla talið svara kostnaði.

Af öðrum rúntum er það helst að á föstudaginn langa fórum við í heimsókn í sumarbústað til Viðars frænda og fjölskyldu. Þau voru með bústað í láni á vesturströndinni, aðeins norðar en Esbjerg, á Henne Strand. Okkur þótti tilvalið að líta á þau, aldrei komið á þessar slóðir áður. Höfðum reyndar verið að spá í að gista en Skottan var ekki alveg heil eftir magapestina svo við gerðum dagsferð. Bústaðurinn var ansi flottur, bjálkahús, alveg hvítmálaður að innan og frekar gamaldags húsgögn. Skemmtilega staðsettur í sumarbústaðahverfi án þess að vera alveg ofan í næsta granna. Þarna er greinilega mikið af Þjóðverjum, kjarninn sem þjónustar byggðina var afar þýskuvænn, allar merkingar bæði á þýsku og dönsku. Við gengum meðal annars niður að strönd, þrátt fyrir kulda og skít, Skottan gekk eins og herforingi, kærði sig alls ekki um að láta halda á sér. Strumpan náði góðu sambandi við frændsystkini sín, Viktoría frænka hennar er ári eldri og Strumpunni þótti mikið til þess koma hvað hún var góður gestgjafi. Við keyrðum síðan heim eftir kvöldmat, áttum rólega heimferð þar sem unga daman svaf alla leið.

Páskadagur var að mestu leyti hinn ágætasti, þó ég hafi reyndar verið hálfgerður Helgi (sem er frægur fyrir hátíðaveikindi), páskaeggið fór illa í mig og ég var óróleg í maganum allan daginn, þetta hlýtur að vera ellimerki. Dæturnar fóru í páskaeggjaleit, sem tók óvenju fljótt af því Strumpan las svo vel úr vísbendingunum. Skottan var alsæl að fá nammi, það er ekki daglegur kostur í ungu lífi. Litla eggið hennar var reyndar gert upptækt áður en það var klárað en eflaust hefði hún ekki átt í vandræðum með að sporðrenna því öllu. Um hádegisbilið lögðum við síðan í’ann í Tivoli Friheden, við Árósabúarnir höfðum alveg klikkað á að fara þangað í fyrra, svo það var heldur betur tímabært. Það var fallegt veður, en svolítið kalt, rólegt í Tívolí og litlar raðir. Strumpan fékk turpas eins og venjulega en við keyptum bara miða handa Skottunni. Fyrsta tækið sem var prófað var rússibani, Strumpan var afar sátt við að vera orðin nógu há til að fara í rússíbana sem fór á hvolf. Við hin fylgdumst með af hliðarlínunni. Það var ekki laust við að kæmi skelfingarsvipur á dömuna í ferðinni en hún var alsæl, í pínu adrenalínrússi þegar hún kom út og fór strax í næstu ferð. Við gengum síðan áfram um garðinn og til að byrja með var það bara stóra daman sem fór í tæki en síðan fundum við tæki sem voru við hæfi lítilla og þá fóru þær báðar. Skottunni fannst líka æsispennandi að fara í tæki, hápunkturinn til að byrja með var tæki sem hún fór í alveg sjálf, bílar sem keyrðu eftir spori sem lá að hluta upp pínu brekku. Það var dama með sólskinsbros sem stýrði styrkri hendi. Undir lokin fór ég einn túr með Strumpunni í rússíbanann góða, lokaði kyrfilega augunum fyrsta hlutann en náði að hafa þau opin undir lokin. Ég er að verða gömul! Dömurnar fóru svo saman í stubbarússíbana, ég var ekki viss um hvort Skottan væri með skelfingarsvip eða gleðisvip en hún var í skýjunum þegar hún kom úr tækinu og vildi fara aftur. Hún stefnir í að verða fyrirtaks áhættufíkill.

Mummi eldaði svo páskalamb af nýsjálensku. Það olli ákveðnum vonbrigðum, bragðið var ágætt en kjötið hálf seigt og ég að auki ekki búin að ná mér í maganum (sem var aðallega galli þegar kom að sítrónufrómasinum, ég náði alls ekki góðum afköstum). Fjölskyldan var hálfþreytuleg eftir daginn, dömurnar sendar snemma í bæl og undirrituð sofnuð um 10 eftir erfiðan dag 😉 .

Á morgun er von á MA kennurum til Árósa. Við fáum matargesti annað kvöld og allan hópinn í innlit á miðvikudag (ég er að hafa af þeim dýrmætan tíma sem annars gæti nýst í búðum!)