Þá erum við enn og aftur búin að taka á móti gestum, að þessu sinni frændum okkar Norðmönnum. Unnur og Ágúst komu seint á fimmtudagskvöld, krakkarnir í góðum gír eftir ferðalagið og kvöldið því með lengra móti. Strumpan alveg að fara á límingunum að bíða eftir þeim og var ansi stjörf daginn eftir að fara í skólann. Föstudeginum eyddum við litlu mægður með gestunum í bænum, alltaf gaman að sýna Árósa. Strumpan var í afmæli seinni partinn og kom seint og síðar meir heim. Það er sérlega ánægjulegt að fá gesti þar sem börnin ná saman og það á svo sannarlega við, þó að það muni þremur árum á Strumpu og Karítas, þá leika þær sem mjög vel og litlu grísirnir fá stundum að fljóta með en léku sér sömuleiðis býsna vel. Á laugardeginum fórum við í Marselisborgarskóg með smá eplabita. Það vakti mikla lukku hjá öllum, Skottan mundi meira að segja hvaða staður þetta var þegar við komum þangað. Það átti að nota ferðina og hengja allar snuddur upp í þar til hugsað tré en greinilega einhverjar tilfæringar í gangi, það fannst að minnsta kosti ekki, svo enn er Skottan með snuð. Eftir skógarferðina fórum við á miðbæjarrölt og enduðum á skondnu kaffihúsi. Blessunarlega hékk hann þurr á þessu ferðalagi. Það sama var ekki hægt að segja um sunnudaginn, gestirnir yfirgáfu okkur upp úr hádegi í skítaveðri. Við áttum brúðkaupsafmæli og ákváðum að fara út að borða. Strumpan hafði verið hjá vinkonu sinni og við sóttum hana og héldum þaðan á Jensens bøfhus. Þar var hins vegar kjaftfullt og löng bið, við fórum í staðinn á hamborgarastað hér rétt hjá, sem selur ægilega fína hamborgara, þeir minnstu eru reyndar 200 grömm og enginn barnamatseðill svo ferðin var nú ekki sú mest spennandi fyrir dæturnar. Við áttum smá tertubita heima sem við fengum okkur og þá var maginn orðinn vel fylltur og ég hafði ekki einu sinni lyst á að opna hvítvín og skála við eiginmanninn.
Á mánudag var Skottan sett í strangar æfingabúðir og var bleyjulaus allan daginn. Það gekk upp og ofan, gærdagurinn betur en dagurinn í dag síður. Það koma slys, sem er kannski aðallega spælandi þegar er búið að sitja á klósettinu tveimur mínútum áður. Það er hins vegar þægilegt að vera að þessu þegar maður er meira og minna heima við allan daginn.
Við erum aðeins að byrja að pakka. Enn sem komið er, eru það fyrst og fremst föt og bækur sem hafa farið niður enda er það sennilega það sem er minnst ómissandi. Þetta virðist vera gríðarlegt magn og verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Það er búið að leggja drög að því hvaða hlutir fara í skip en mér er ómögulegt að gera mér grein fyrir hversu mikið magn það er. Við erum líka byrjuð að selja það sem við ætlum ekki með heim, búin að selja gömlu kerru Skottunnar og hjólakerruna, við lítinn fögnuð hennar. Hún hefur þungar áhyggjur af „hjólinu“ sínu og skilur auðvitað ekkert í því þegar við reynum að útskýra málið. Nú er bara að vona að hjólakerran okkar heima komi sterk inn (og að hjólreiðarnar okkar haldi áfram 🙂 .