Sóley átti alveg snilldartakta í gær. Sem við hjónin lágum uppi í rúmi fór hún í fyndna kastið sitt, kyssti okkur í bak og fyrir og vinkaði kröftuglega bless. Labbaði ögn frá rúminu, kom aftur og endurtók leikinn og gerði það svona þrisvar – fjórum sinnum. Þá spurði ég hvort hún vildi ekki líka kyssa Prinsa bless, en hann lá í sakleysi sínu á náttborðinu. Hún tók mig auðvitað á orðinu og rauk að honum með stútmunn. Hann skyldi ekkert hvaðan á hann stóð veðrið. Hún kom svo loks kossi á hann og þá vantaði bara að hann færi að spýta. Hann reisti sig upp og hristi hausinn svona eins og í hryllingi og þá fórum við náttúrulega að hlæja tryllingslega. Sóley espaðist öll upp við lætin í okkur og tók smá trúðslæti og við hlógum ennþá meira. Henni finnst ekkert sérstaklega leiðinlegt að vera miðpunkturinn.
Annars fékk ég mjög skemmtilegt símtal í gærkvöld, frá góðvini mínum frá því í gamla daga (mikið er gott að einhverjir eru duglegri að hringja en ég…) Hann var ansi hreint kátur og við áttum gott spjall. Meðal þess sem barst í tal var listinn minn góði sem var aðal efnið í pistlunum mínum hér fyrr í sumar. Hann spurði hvort ég myndi virkilega ekki hafa Samönthu Fox á listanum. Ehemm. Ég hef nú ekki séð nýlega mynd af henni en hún þarf að hafa elst virkilega vel til að komast anywhere near!