Nei, ég er ekki orðin lesblind eða rugluð. Efni póstsins í dag er söngfuglinn dóttir mín. Hún er farin að syngja tvö til þrjú lög og titill dagsins er einmitt titillinn á uppáhaldslaginu hennar. Fiskinn minn, namminamminamm. Þetta syngur hún af hjartans lyst og hljómar svona „iski mi – amiamiam“ eða nokkurn veginn. Þetta er alveg með því krúttlegasta 🙂 Hin lögin eru Dansi dansi dúkkan mín (dansi gukka mi) og svo tók hún aðeins undir með Ómari Ragnarssyni í Liggaliggalá.
Við fórum í góða ferð í Svarfaðardalinn í gær. Skúli, frændi minn elskulegur, og vinnufélagi Mumma bauð okkur að sækja sig heim á ættaróðalið, Skeggstaði. Mummi tók engar leiðbeiningar niður í þeirri fullvissu að konan hans þekkti Svarfaðardal eins og lófann á sér og það stóðst nokkuð framan af. Ég þekkti nánast hvern bæ með nafni. En ég klikkaði á stóru atriði. Þannig er að Skeggstaðir standa í dalnum að austan og þegar við keyrðum inn afleggjarann var merking um að vegurinn væri lokaður við Hofsá. Ég vissi nokkurn veginn að það væri næsti bær við, en hvoru megin, það var ekki nógu skýrt. Svo við keyrðum fram dalinn að austan til þess eins að komast að því að Skeggstaðir væru sunnan við Hofsá og þar af leiðandi ekki hægt að komast þessa leið. En við fórum þá bónushring um dalinn og ég gat rifjað upp bæjarnöfnin að vestanverðu.
Ég var samt rétt búin að dást að sjálfri mér og hugsa um hvað afi gæti verið ánægður þegar Mistökin uppgötvuðust.
Ættaróðalið hans Skúla frænda míns er annars hið skemmtilegasta. Eldgamalt hús, pínulítið og ofurlágt til lofts. Það var sem sagt á leiðinni til og frá Dalvík sem Sóley Anna söng okkur til skemmtunar. Við endum á því að verða fjölskyldan sem syngur Fiskinn minn í bílnum.