Fyrsta áfall nýs árs var að finna grátt hár í höfðinu. Ekki það að þau hafa víst fundist áður, en ég var greinilega búin að blokka það algerlega – ég sem er búin að vera svo sæl með ólitaða hárið mitt, skyndilega sá ég fram á mánaðarlega hárlitanir, og það skánaði ekki þegar Mummi og Sigrún fóru að róta í hárinu á mér og fundu strax tvö til viðbótar.
En brúnin á mér lyftist fljótt og það var elskulegur mágur minn sem sá fyrir því. Hann spurði í forundran hvort ég hefði virkilega kippt sjálf hár úr höfðinu á mér, sem mér fannst ákaflega undarlega spurt, af hverju ætti maður ekki að gera það? Þá sagði hann einhverja dramatíska sögu um hversu hársár hann væri. Okkur fannst hún frekar undarleg og fórum fram á að fá að kippa hári úr höfðinu á honum en hann tók það ekki til mála og tók til fótanna. Sigrún elti hann og króaði hann af og eftir nokkrar fortölur fékkst hann til að fórna hári. (Lýsingar fórnarlambsins eru hér).
Nema hvað, hann rak upp þvílíkt ramakvein að annað eins hefur vart heyrst og við það fengum við hin hláturskast (engin samúð með slösuðum manni) og réðum vart við okkur. Þar með var mínum gráum hárum útrýmt úr kollinum á mér og ég er hætt að hafa áhyggjur af þeim (í bili).