Kvöldsöngurinn

Hér á heimilinu er sú hefð að auk hefðbundins bókalesturs á kvöldin eru alltaf tekin nokkur lög fyrir svefninn (fyrir Sóleyju, það er ekki svo indælt að við Mummi sitjum og syngjum hvoru öðru ástarljóð). Þetta er voða gaman og fyndið hvað uppáhaldslögin rokka til. Hefðin er samt sú að enda á Dvel ég í draumahöll og þegar ég sting upp á því biður Sóley iðulega um eitthvað annað til að treina stundina. Þessa dagana er það yfirleitt Róbert bangsi. Ef ég neita henni um það og fer beint í Draumahöllina á hún það til að liggja við hliðina á mér og syngja Róbert bangsa. Nema í kvöld. Þá tók ég viðlagið í Róbert og á meðan fór hún í Draumahöllina – hljómar örugglega mjög fallega þegar við syngjum sitt hvort lagið – hvor með sínu nefi. Við sungum líka Fann ég á fjalli saman í kvöld og ég veit ekki hvort hún var að sanna fyrir mér að hún kynni það, eða hvort henni fannst ég syngja það eitthvað hægt, amk var hún alltaf aðeins á undan mér og það var pínu erfitt að halda einbeitingunni og syngja „fallega“ með þennan samsöng í eyrunum 🙂