Desember á hraðleið

Desember þýtur hjá og ég er ekkert farin að koma mér að verki. Vissulega eru jólakortin klár til skrifta en ekkert farið að skrifa í þau enn, þó eiga tvö að fara til Danmerkur, og það er víst síðasti skiladagur í dag. Mér hefur bara ekki tekist að finna neinn jólaáhuga enda er desembermánuður með skrýtnasta móti, Sörubakstur féll niður, það var kannski aðallega átið á þeim sem kom mér í gott skap en síðan hef ég heldur ekki kennt í desember síðan 2001. Fjarkennslupróf og spóluverkefni hrynja inn, þeim hef ég líka alltaf getað sinnt á daginn en  svoleiðis lúxus er nú ekki til lengur.

Ég held að ég verði að fara að setja Palla og Móniku á og vona að það gerist eitthvað í kollinum á mér. Það eina sem gleður mann svona jólalega séð er Strumpan. Jólasveinninn lumar á ýmsu handa henni og það þarf ekki að vera mikið til að gleðja mann. Hann var reyndar býsna stórtækur í morgun og kom með nýja Barbapabbabók, hún hafði einmitt haft orð á því í gærkvöld að sig langaði svo í fleiri. Annars held ég að hún hafi nánast haft ör á sálinni svona framan af, allir í götunni öflugri í jólaskreytingum en við, sennilega hefur hún haldið að við værum í Vottunum eða eitthvað. Við bættum samt úr þessu og hentum seríum í gluggana í stofunni en það er svona varla að það dugi. Henni finnst líka ógurlega skrýtið að við eigum gamalt jólatré sem langafi bjó til og hún segist staðföst aldrei hafa séð það. Þó er það fyrir allra augum á neðri hæðinni.

Ég hlakka til næstu viku. Þriðjudagurinn fer meira og minna í jólastund hjá mér, ætli ég smelli ekki Kim Larsen á fóninn og spili Et barn er født i Bethlehem, hann fer svo vel með það. Síðan er ég búin að panta mér nudd, klippingu og plokkun svo þetta verða dekurdagar. Eina krísan í dekurspekúlasjóninni er hvort ég eigi að skoða jólaföt. Mig svona hálf langar í nýjan kjól… einhvern svona gamaldags sætan. En kannski ætti ég bara að draga upp gamla kjólinn hennar ömmu sem ég var í á árshátíðinni hér um árið?

PS Ég skrifaði langa og skemmtilega færslu á mánudag en einmitt á meðan datt ég út af þráðlausa netinu og allt hvarf. Þess vegna setti ég bara inn mynd frá Parken, GM er mér enn ofarlega í huga og það var einmitt mánuður frá tónleikunum.