Strumpan kom inn korter yfir sex í morgun og tilkynnti okkur það að hún ætti afmæli í dag :). Foreldrarnir voru ekki alveg sannfærðir en sú stutta fullyrti að ég hefði verið að segja það við hana áðan… Hún var tekin upp í og bæld niður aftur og minntist ekki orði á afmæli í vöknun tvö en kom reyndar með smá pælingar á leiðinni í leikskólann hvort það væri mjög langt í næsta afmæli. Ja, það sem tíminn líður stundum hægt.
Annars átti ég smá menningarmóment í gær. Fór á framhaldstónleika (skil nú ekki með þetta nafn samt) hjá gömlu fósturbarni Önnu systur, hún Þóra Kristín var sem sagt með píanótónleika. Það var gaman, stúlkan sú orðin svo sæt (alveg í takt við gömlu prinsessudraumana) og spilaði eins og engill eftir smá byrjunarörðugleika. Ég fór með Auði sem er náttúrulega í þessari fjölskyldu, hún kom síðan með mér í mat heim. Við erum búin að uppgötva nýjan ís, „þökk“ sé Ármanni og Hönnu sem buðu okkur í mat um síðustu helgi. Bónus, af öllum, er sem sagt farin að selja annars vegar jógúrtís og hins vegar gelato og þeir eru hvor öðrum betri. Við gerðum okkur sérstaka ferð í Bónus til að kaupa smakk, keyptum jarðarberjajógúrtís og piparmyntugelato… U-um-umm. Að auki fann ég í Bónus svona pakka með litlum Lakkrísdraumum, ég sem er einmitt á Lakkrísdraumaskeiðinu núna og hafði einmitt verið að spá í því hvort þeir ætluðu nú ekki að fara að setja svoleiðis á markað! Þessi helgi var sem sagt ekki til færri kílóa nema síður sé.