Þá er stóra daman búin að vera tvær vikur í skólanum og það sem byrjaði með mikilli gleði hefur eitthvað dalað í vinsældum. Aðal umkvörtunarefnið er að það er allt svo ógeðslega ósanngjarnt, það eina sem maður má í þessum skóla er að hlýða. Móðirin spyr sig um uppeldið hingað til, fyrst að daman kannast ekkert við það að fara eftir reglum og hlýða, þá hefur líklega eitthvað misfarist. Hún er komin með lestrarbók (frekar svona í léttari kantinum finnst foreldrunum) og er í því að lesa heima (las 180 atkvæði á lestrarprófi í síðustu viku) og fékk að vita að það kæmi meiri heimavinna á morgun og það var dæst yfir því enda heimavinna með eindæmum leiðinleg. Hvort það er Harry Potter sem hefur þessi áhrif á hana eða hvað, hún hefur nú ekki slíka reynslu af heimavinnu sjálf að það sé ástæða til að úthrópa sig. Það er yfirleitt mikil tilvistarkreppa, fimleikarnir standa ekki undir væntingum og hún hallast að því að þykjast vera fimm ára til að fá að fara aftur í fimleika eins og í fyrra, fiðlan er ágæt en ómögulegt að æfa sig heima á þann hátt sem kennarinn leggur upp með og hóptíminn hræðilegur af því að það eru svo stórir krakkar þar og daman feimin. Sundið stendur enn fyrir sínu, það er helst móðurinni sem finnst full mikið að þurfa að bíða eftir frökeninni sinni, sem þarf að lágmarki hálftíma til að græja sig eftir sundið.
Annars skrifa foreldrarnir þetta allt á væntanlega fjölgun því lífið á heimilinu snýst mikið um hana. Nú eru tæpar þrjár vikur í lendingartíma og hlutirnir á „to-do“ listanum eru óðum að koma, hér er þvegið, skipulagt, tekið til og hent í gríð og erg. Nöfn á bæði kyn liggja þó nokkuð örugglega fyrir og þá er annað aukaatriði. Hin tilvonandi móðir var grounduð frá vinnu í síðustu viku eftir að afleysingaljósmóðirin náði að stressa hana upp svo blóðþrýstingurinn þaut upp úr öllu valdi. Hún var send á sjúkrahúsið með hótunum um innlögn, en það slapp sem betur fer og skoðunin í dag (hjá Möllu, minni eigin ljósmóður) sýndi að allt var fallið í ljúfa löð aftur. En ég á víst samt að taka því bærilega rólega og geri það alveg hálfan sólarhringinn eða svo. Það var auðvitað ágætt að þurfa ekki að byrja að vinna, hver veit í hvers kyns atvinnubótavinnu ég hefði lent, en það er samt skrýtið að vera ekki með og þegar ég álpast yfir í skóla undir mismunandi fyrirslætti þá eru allir að vinna og enginn hefur tíma til að vera sósjal … óskiljanlegt.