Dönskunördar hittast á ný

Já ójá. Langt om længe. Loksins eru Nikolaj og Julie á skjánum aftur (nota bene jú-lí-ö en ekki júlí eða djúlí eða neitt svoleiðis, hafa þetta á hreinu).
Fór til Kristínar í sjónvarpspartý. Fyrsti þáttur síðustu syrpu lofar góðu. Það á eftir að vera mikið drama næstu sunnudagskvöld. Gæti ekki verið kátari.
Það teygðist að sjálfsögðu á kvöldinu, allt of langt síðan við hittumst síðast.

Við mæðgur fórum í dagmömmuleiðangur á föstudag. Það er nefnilega ógurleg krísa í gangi með apríl og maí, þennan mánuð eða einn og hálfan sem vantar upp á með pössun. Ekki útséð með það enn. En Sóley hafði gaman af því að hitta hin börnin, náði að lemja sér yngri strák svo hann fór að skæla. Stefnir í mikið skass. (Innskot frá föður; hefur það ekki frá honum, enda fór hann ekki að berja aðra fyrr en hann var eldri; innskot frá mér).

Hún er einmitt að verða hin mesta frekja. Verður verulega reið núna við allt mótlæti. Ætlaði til dæmis ekki að sofna eitt kvöldið í vikunni af því að hún þurfti að afhenda tannburstann sinn aftur. Við reynum markvisst að stríða við frekjuköstin, það verður að reyna að kæfa þetta í fæðingu 🙂

Ekkert sjónvarpsblogg í kvöld (annað en Nikolaj og Julie auðvitað). Það væri auðvitað hægt að ræða um Popppunkt (meðan ég man – að vita ekki að fyrsta Wham platan heitir Fantastic eru náttúrulega hræðileg glöp) eða American Idol en ég læt það vera.

Að lokum; Afmælisbörn dagsins erum við Mummi. Í dag eru 7 ár síðan við hófum búskap (hljómar svo mikið betur en sambúð.) Þess vegna notaði ég tækifærið og var að heiman í kvöld. Vantar ekki rómantíkina eftir allan þennan tíma 🙂