Í gærkvöld fór ég á árshátíð Síðuskóla. Það var alveg ljómandi gaman. Núverandi 10. bekkingar eru gamlir umsjónanemendur svo það var nauðsynlegt að sjá atriðið þeirra. Ég virðist vera fallin í gleymskunnar dá samt. Jú, einhverjir heilsuðu mér, aðrir föttuðu eftir langa stund hver ég væri, sumir föttuðu það held ég aldrei og enn aðrir eru svo töff að þeir heilsa ekki gömlum kennurum.
Í dag lauk vinaviku VMA. Þetta hafa verið frábærir dagar, mikið glens og gaman. Við fengum meira að segja vöfflur með kaffinu í dag, það er ekki hægt að vera í aðhaldi undir svona kringumstæðum. Ýmsar sniðugar gjafir komu, þeir sem áttu „bestu vinina“ fengu meðal annars ostakörfu með annars vegar óáfengu rauðvíni, hins vegar bjór.
Hinrik fékk að skilnaði frá mér heimalagað döðlubrauð, ég sá svo sem engin viðbrögð við því en ef hann er ekki ánægður þá er hann vanþakklátur grís, því það var mjög gott (bakaði tvöfalda uppskrift svo Mummi fengi eitthvað líka).
Ég fékk að skilnaði smábók „Spakmæli“ sem ég á eftir að líta betur í. Í kvöld á svo að ljóstra upp hverjir eru vinir hvers og eins gott að það er vínkynning um leið, því sumir eru frekar fúlir út í lata vini. Þar sem Mummi er að fara suður er búið að panta pössun hjá afa og ömmu í Akurgerðinu 🙂