Félagsmálafríkið

Jamm, enn sannast hið fornkveðna, það gerist alltaf allt á sama tíma. Þessa dagana blómstrar félagslífið mitt enn á ný. Mér er svo mikið hjartans mál að koma því á framfæri af því að fyrir stuttu síðan átti ég mér ekki félagslíf.
Var í kvöld að horfa á Wallander með hinum krimmunum. Alltaf gaman að svona samanburði bók/mynd. Það sem myndin gerði vel (úff ljót íslenska) var að finna hárrétta leikara. Þeir smellpössuðu hver öðrum betur. Við horfðum á myndina í VMA og það var hálfgert ævintýri því besta tækið er í D álmu (fyrir þá sem ekki þekkja til er D álman einnig nefnd Djöflaeyjan og það er ekki innangengt í hana – þangað þarf ég að fara að kenna og kalla það hæfilega hreyfingu að ganga þangað daglega). Bestu sætin voru hins vegar í A álmu (og niðurstaðan úr þessu stöfum er sem sagt að það er langt þarna á milli.)

Við fengum því fílhrausta karlmenn að bera sjónvarpið yfir í C þaðan sem hægt var að rúlla því á endanlegan stað og þurftum svo að skila því í kvöld. Þetta var kostulegt allt saman af því að hjólaborðið sem sjónvarpið er á, er ekki nógu kröftugt til að þola rúllun yfir hellurnar fínu sem arkítektinum datt í hug að hafa á gólfinu, svo hjólaborðið þurfti að fara upp á hjólavagn sem var heldur burðugri. Hjólaborð með sjónvarpi á, uppi á hjólavagni er samsetning sem býður hættunni heim. Fyrir utan að þurfa síðan að lyfta hjólaborðinu yfir þröskulda, rúlla því á milli álma utanhúss og það allt. Þetta gekk vel á endanum, þangað til annað kemur í ljós með sjónvarpið að minnsta kosti.

Á morgun er svo árshátíð VMA. Ég fæ frítt að borða, það er svona helsta ástæðan fyrir því að ég nenni að fara. Sýna lit og svona. Pétur Jóhann er veislustjóri og Papar leika fyrir dansi. Hjalti Jón notaði tækifærið og lofaði nemendum tækifæri að dansa við kennarana, við yrðum öll með danskort. Verst að ég ímynda mér að 95% nemenda viti ekki hvað danskort er, svo þau skyldu ekki þennan fína brandara.

Félagslífið nær væntanlega hámarki á laugardag því þá ætlar Bjarni að bjóða okkur í mat. Það gerist að jafnaði á tveggja ára fresti eða svo, þannig að þið sjáið að þetta er voða merkilegt.