Hin gömlu kynni gleymast ei

Í dag hitti ég Valgerði í fyrsta sinn í tvö ár eða þar um bil. Hún var stödd í bænum af því að mamma hennar var í mjaðmaaðgerð á sjúkrahúsinu. Fengum okkur kaffi á Bláu og sátum góða stund og spjölluðum. Það var virkilega gaman. Skondið að ég reyndi einmitt að heimsækja hana þegar ég var í borginni síðustu helgi en þá var hún farin norður í sveitina svo ég náði ekkert af henni. Ég hef saknað þess ógurlega að hitta hana ekki oftar, því eins og máltækið segir „we sure had some good times“. Hún bað að heilsa þeim sem þekkja hana (svona eins og í Lögum unga fólksins hér í den, afganginn af kveðjunni fá allir sem vilja þekkja mig…).

Maturinn í gær var ógurlega skemmtilegur. Ég fór víst villur vegar þegar ég sagði að Bjarni væri að bjóða í mat, svo að matarboðunum fækkar sem því nemur, eru þá ekki á tveggja ára fresti heldur sjaldnar. Nei, hann var bara boðberinn því það var Anna systir hans sem bauð. Þetta var fjölskylduvænt boð, borðað snemma og með mat við hæfi dömunnar. Það voru allir duglegir að hafa ofan af fyrir henni svo hún skemmti sér líka hið besta. Fengum ógnarfína gúllassúpu með alveg æðislegum bollum – ég þarf að kría út uppskrifirnar að þessu öllu.

Árshátíð VMA var líka fín. Góð skemmtiatriði þar sem gamlir heimilisvinir hér, síðan mágur minn var hér til heimilis, fóru á kostum og fluttu lagið „Strákur að nafni Stína“. Langt síðan maður hefur heyrt það! Pétur Jóhann var frábær veislustjóri og maturinn góður. Hápunkturinn var samt auðvitað að sitja þarna í öndvegi í boði nemenda 🙂 Ég man þegar ég var í MA hvað það fór í taugarnar á mér hvað kennararnir höfðu það gott, en ósköp á maður það innilega skilið bara. Stemmingin líka öðruvísi en það sem ég átti að venjast hér í gamla daga, helgast sennilega mikið af því að þetta er ekki bekkjaskóli.

Annars á danska júróvisjón lagið hug minn allan þessa dagana. Íslenski homminn alveg að gera sig. Sig det løgn heitir lagið hans fína og er svona ansi skemmtilegt. Ég er að reyna að dánlóda því til að vera svolítið hipp í kennslunni, en það gengur erfiðlega.