Afmæli ársins

Já, afmælisbörn dagsins (17. jan) eru tvö. Annars vegar er það alvöru afmælisbarnið sem er Anna Lilja hin þrítuga (velkomin í hópinn) og hins vegar Skúli frændi minn úr Svarfaðardal sem varð fertugur á aðfangadag en ákvað að halda upp á það í dag. Sem frænku og konu vinnufélaga var mér boðið og þvílíkt afmæli. Maginn á mér er glaður, raddböndin eru volg og ættrækniþráðurinn er sperrtur.

Það er ekkert hálfkák hjá Skúla. Það var hlaðborð með alls kyns góðgæti. Að öðru ólöstuðu kom nauta carpaccio skemmtilegt inn. Aðal bragðlaukatryllir kvöldsins var samt eftirrétturinn, mjúk súkkulaðiterta með hindberjasultumauki. Þetta tvennt á samleið.

Skúli býr síðan svo vel að eiga vinahóp sem hefur gaman að því að syngja. Af einhverjum óljósum ástæðum var sönghefti með eins og einu og einu Stuðmannalagi dreift og sungið við undirleik Friðfinns Hermannssonar. Flottustu innlegg kvöldsins, má vart á milli sjá hvort var betra, voru básúnueinleikur Skúla við Í bláum skugga og bongótrommusóló í nokkrum lögum. Já, kappinn lumar á ýmsu.

Ég náði pabba hans glóðvolgum í ættfræðiumræður, enda vorum við fyrstu gestirnir. Það vildi reyndar svo vel til að hann ræddi fyrst og fremst ættingja sem ég er vel að mér í svo ég kom sterk inn.

Að auki minnti ég Skúla reglulega á heimboðið í Skeggstaði, svo það ætti að komast á dagsskrá einhvern tímann í sumar.

Get ekki hætt að blogga nema minnast ögn á Ídólið í gær. Ég er bæði sátt og ekki við úrslitin. Sátt að því leytinu að hin tvö áttu ekki skilið að vinna. Jón hefur að vísu verið á uppleið og er greinilega að toppa á réttum tíma og Anna Katrín er klárlega meira efni en þeir báðir til samans en var því miður að botna á versta tíma.
Ég var hins vegar ósátt af því að Kalli er ekkert sérstakur. Hvað gerði hann til dæmis sérstakt við Mustang Sally? Það var varla að maður heyrði að þetta væri ekki órigínal lagið. Ég sé hann voða vel fyrir mér sem sveitaballasöngvara en ekkert meira. Óska honum samt alls hins besta en kannski fer þetta eins og með Clay Aiken. Það er ekki sigurvegarinn sem á eftir að slá í gegn.

Að lokum. Ég vildi að ég væri á NASA. Ball með Nýdönsk. Hefði pottþétt farið ef ég hefði verið í borginni. Those were the days.