Montið barn og foreldrar

Stór dagur í gær. Litla strumpan, sem hefur síðustu vikur verið að bisa við að læra að standa á fætur, stóð ægilega sperrt upp í rúminu sínu í gær. Sem betur fer var búið að lækka botninn og þetta ekki mikið glæfraspil hjá henni. Hún var reyndar búin að hálf standa upp í sófanum en þarna var hún sem sagt ógurlega kát og montin og hélt sér í rúmbríkina. Við urðum auðvitað alveg lifandis montin líka og hrópuðum og klöppuðum og þá jókst nú heldur montið hjá henni og hún vildi líka klappa fyrir sjálfri sér og datt þá á bossann.
Ekki nóg með það, hún reisti sig líka upp úr liggjandi stöðu. Týpískt samt að þetta gerist allt þremur dögum eftir 10 mánaða skoðun þar sem er sérstaklega spurt hvort hún sé farin að standa upp.

Aðrar merkilega fréttir, en auðvitað í öðru sæti á eftir þessum tíðindum, eru þær að hér er búið að festa niður sumarleyfisferð. Við, litla fjölskyldan, ætlum ásamt Árnýju og stórfjölskyldu til Danmerkur. Erum búin að bóka gistingu í sveitinni á Jótlandi og verðum þar í viku. Okkar ferð er síðan heitið til Svíþjóðar, í bústað fjölskyldunnar. Sem sagt algjör slökun framundan. Og gististaðurinn lofar mjög góðu.

Við hjónin horfðum svo á Popppunkt endursýndan í gær. Höfðum það extra huggulegt með kaffi og köku (heyrt þennan áður?) Sigurður Kári kom mér á óvart, það var svolítið líf í honum (nema í poppglímunni…) en aumingjans Jónína Bjartmars. Hún var bara fyrir, gat ekki einu sinni sungið með í „Ég er á leiðinni“!