Níunda tönnin brýst í gegn

Þá kom loksins sú níunda, að þessu sinni til vinstri í neðri góm. Það hlaut að koma að því, því Sóley hefur slefað eins og það sé skrúfað frá einhverjum uppsprettum og þess á milli verið með puttana á kafi í munninum. Auk þess sofið illa og verið heldur geðill á köflum. Hún er alls ekki á því að leyfa manni að vera með þreifingar í munni svo það er rétt svo að maður nái að finna fyrir henni.

Kílópóstur dagsins er býsna góður. Sérstaklega í ljósi þess að nú eru bara fimm dagar síðan ég var vigtuð síðast. Jamm nú voru farin 1.2 kíló, því miður náði ég ekki fitukílóshlutfallinu, svo þær fréttir koma síðar. Örugglega allt föstudagsjóganu að þakka.
Afskaplega ánægjulegt. Til öryggis, svo menn séu ekki að gera sér einhverjar hugmyndir, þá er ég enn mjög myndarleg í vextinum. En þetta er allt að koma.

Smá Survivor athugasemd að lokum. Þetta er að verða jafn (ó)spennandi og Formúlan. Nú þarf eitthvað að gerast svo maður deyi ekki úr leiðindum.