Sunnanvindur

Fórum til Reykjavíkur seint og síðar meir á föstudag eftir kennaraþing – sem var aaafar leiðinlegt, amk á köflum, þökk sé ákveðnum skólameistara í hópnum (ekki þó mínum). Sóley ofurdugleg í sundi, kafar eins og mofo og mjög kát yfirhöfuð. Keyrðum í friði og ró suður þar sem unginn sofnaði eftir 45 mínútna akstur. Ekki gerst í manna minnum. Fórum til Óla bróður að kanna „gistiaðstöðu Óla og Eyglóar“ sem reyndist hin besta í hvívetna og ekki laust við að ég taki undir með bróður mínum að Neðra-Breiðholt er nokkuð miðsvæðis. Laugardagur fór í hefðbundnar verslunarferðir (erum einu svefnherbergisljósi ríkari og einni ágætri debetfærslu fátækari) og heimsóknir – áttum góða stund með Árnýju og co þar sem dömurnar undu sér vel. Hittum frk Sacher á Segafredo – gaman að koma þangað.

Aðal tíðindi kvöldsins þau að ég fór á Broadway með Óla bróður – ja, hvort sem annað í undarlegheitum, á The Miracle sem er hollenskt Queen cover band. Þeir voru alveg hreint ljómandi skemmtilegir. Það var dásamlega gaman að dansa og syngja með og það var eiginlega voða fyndið líka að standa alveg upp við sviðið án þess að vera að tapa sér í grúpíustælum eins og ýmsir (af báðum kynjum). Bassaleikarinn lenti meðal annars í því að ein sem var ólm í að ná athygli hans, kastaði ísmolum í hann, þangað til hann brosti til hennar *argh* hvað fólk er heimskt – og svo var hið hefðbundna íslenska lesbíuatriði tekið við hlið mér um stund. Úffúffúff. Mikið af heimsku fólki. Stórkostlega fyndið atriði í Love of my life þar sem voru bara söngvarinn og hljómborðsleikarinn á sviðinu og ég með lokuð augun að syngja með. Verð allt í einu vör við eitthvað fliss og þá standa hinir við hliðina á mér og eru að skrækja á söngvarann og teygja sig í hann og hann að deyja úr hlátri en svaraði svo fyrir sig með nipplufitli. Well, you had to be there. Ferlega gaman líka að fara svona líka bláedrú þó vissulega geti stundum verið auðveldara að hunsa heimskt fólk þegar maður er í sama ástandi og það.

Í gær fórum við í maraþonferð í Smáralind og úr henni komu tvær kaffihúsaferðir (eftir morgunmat dauðans á Gráa kettinum, umm) og sitt hvor græna peysan á okkur mægður úr Söru og að auki alveg krúsuleg mokkakápa – sem þarfnast eiginlega myndskýringar – á Strumpu. Stór dagur því ég hef ekki áður verslað í þessari ofurvinsælu búð. Fórum svo út að borða á TGI Friday í fyrsta sinn og átum alveg á okkur göt. Heli og frú kíktu síðan í Grýtubakkann í spjall. Keyrðum norður í dag – ekki alveg eins róleg ferð og skítaleiðindaveður á köflum. Eins og alltaf gott að koma heim í sína eigin sælu.