Kellingaklúbbur

Fékk upphringingu í síðustu viku þar sem mér var boðið að ganga í Ladies Circle – fyrir þá sem ekkert græða á þessum upplýsingum þá er það kvennaangi af Round Table. Ég var lukkuleg yfir því og fór í gærkvöld á fyrsta fundinn (en þeir eru einu sinni í mánuði). Þema fundarins var menning og eftir að sitja í sal félagsins og ræða menningu, fórum við í heimsókn í leikhúsið, þar sem Magnús Geir leikhússtjóri tók á móti okkur. Það er skemmst frá því að segja að það var afar skemmtileg stund, hann er svo lifandi og geislar af áhuga fyrir því sem hann er að gera og það smitar algjörlega út frá sér. Ef ég væri ekki búin að kaupa árskort í leikhúsið, þá hefði ég pottþétt verið á leiðinni að gera það núna. Hann sagði svo ágæta setningu sem líkist einni sem reglulega er sögð hér innanhús. Í hans útgáfu, hvað það væri gott að vinna í leikhúsi þegar það eru engir leikarar. Þið getið ímyndað ykkur útgáfu kennarans 😉
Svo var endað á Friðrik V. og þar var okkur færður kokteill – alveg óhemjugóður og frískandi. Mér leist bráðvel á þetta og hlakka til næsta fundar. Það er ágætt fyrir mann að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast einhverjum sem er ekki kennari eða hjúkka (ok eða bókasafnsfræðingur og svo framvegis), þið vitið hvað ég meina.