Sundgarpurinn

Strumpan er búin að fara tvisvar í sund það sem af er hausti. Í fyrra skiptið hitti hún stelpu af leikskólanum sem er algjör selur, nema hvað, mín sperrtist öll upp við það og hermdi allt eftir henni. Fannst það samt algjör bömmer að eiga ekki líka sundgleraugu eins og Aldís Kara. Svo það var gerður út leiðangur og eins og sést fundust þessi líka fínu gleraugu (sem harmónera vel við Nemó-sundbolinn). Þau voru fyrst prufukeyrð í baði og reyndust þetta líka vel og fóru svo í jómfrúrsundið á föstudag. Ekki var nú virknin síðri þar og fröken ögn sæl með sig.
Það er ótrúlega gaman að því hvað henni hefur farið fram – ekki hafa ferðirnar verið svo reglulegar í sumar *hósthóst*. Núna er hún miklu jákvæðari að kafa og berst við að synda eins og hún mögulega getur. Þetta verða góðar stundir í vetur. Sérstaklega ef hún kemst yfir sundkennarafóbíuna. En kannski er ekki hægt að losa hana undan öllum genetískum fóbíum, þrátt fyrir góðar og gildar tilraunir 🙂