Nýtt ár

Gleðilegt ár, fjölskylda og vinir. Enginn árspistill héðan held ég (nema ég fái fjölda áskorana 😉 ). Jólafríið sigið verulega á seinni hlutann og hefur ekki staðið alveg undir væntingum. Hér hafa herjað ógeðslegar magakveisur, stráfellt nær alla tengdafjölskylduna, aðeins einn og einn kemst óskaddaður frá. Svo það hefur verið minna nammi, vín og almennt sukk en til stóð. Ég hef þó náð að lesa smá. Kláraði ýmsar bækur sem hafa verið mislengi í gangi, hvað lengst síðan í september en las frá upphafi til enda einnig Dimmar rósir Ólafs Gunnarssonar og Myrká Arnalds. Hvoru tveggja ágæt afþreying. Þessara jóla verður reyndar líka minnst vegna þess að Sóley fékk nokkuð margar bækur í jólagjöf líka og er búin að lesa mikið sjálf uppi í rúmi. Er að verða alvöru jólabókaormur (hér sá skrípið hvað ég skrifaði og sagðist vera ORÐINN alvöru jólabókaormur).

Í gær tókum við því frekar rólega, vorum bara þrjú heima. Höfðum mat svona að dönskum sið, rækjukokteil, önd og appelsínufrómas. Ég var frekar róleg í átinu, enn að jafna mig í  maganum. Kíktum í Skólastíg til að mingla örlítið, Ögmund höfum við til að mynda ekki séð í hálft ár eða svo. Horfðum svo á Skaupið þrjú, Sóley á þessum aldri að vera nógu gömul til að horfa án þess að vera svo gömul að skilja eitthvað. Síðan horfðum við á bombur í boði grannanna. Þeir skjóta upp hver öðrum meira. Ekki ónýtt að búa í kringum ríkt fólk þegar maður tímir alls ekki að splæsa sjálfur. Ármann bjargaði reyndar áramótum dóttur okkar og gaf henni pakka af blysum sem hún fílaði alveg. Annars óttast ég að hún muni hafa ör á sálinni og verða flugeldafrík þegar hún eldist, fyrst að foreldrarnir neita henni um þennan sjálfsagða rétt að skjóta upp. Nýársdagur byrjar svo vel, með amerískum pönnukökum í morgunmat. Getur ekki byrjað betur. Svo ætla ég að hlusta á Happy new year nokkrum sinnum í dag. Náðum nokkrum skiptum í gærkvöld (fyrir skaup 🙂 ). Síðan bíður vinnan sem þarf að vinna áður en vinnan byrjar. Skemmtileg helgi framundan og síðan ofurtörn. Jei.