Í fullorðinna manna tölu

Þá er búið að taka Strumpuna með á fyrstu fullorðins tónleikana í gær. Sú stutta stóð sig þokkalega, var reyndar frekar þreytt og kúrði mikið í fanginu á foreldrum sínum og breiddi kápuna yfir sig, stundum meira að segja upp fyrir haus. Nokkur vonbrigði að geta ekki setið framarlega, Mummi og tengdamamma voru mætt á undan okkur „til að ná þokkalegum sætum“ en það dugði sem sagt ekki til að mæta hálftíma fyrr, þau náðu með naumindum þremur sætum á næst aftasta bekk. Kirkjan var sem sagt stappfull og alveg á mörkum þess siðlega að selja svona mörgum inn. Svo við þurftum að sperra okkur all mikið til að sjá votta fyrir einhverju. Tónleikarnir voru auðvitað ljúfir og kannski á maður bara að taka jólahugarfarið á þetta, þröngt mega sáttir sitja og það allt. Strumpan þurfti reglulega að tjá sig en það var erfitt að banna henni þar, þar sem tvær harðfullorðnar konur spjölluðu sín á milli mjög reglulega alla tónleikana og þá var ekki hvíslað. Að tónleikunum loknum náði Sóley þó að sjá Pál Óskar í nærmynd, hann áritaði diska í anddyrinu og við dokuðum í sætunum okkar þangað til hann fór þangað, þá gekk hann beint fram hjá okkur og sú stutta hneig nánast í gólfið af aðdáun.

Ég dreif mig reyndar líka á tónleika á miðvikudagskvöld. Þá var Kvennakórinn Embla með tónleika og litli frændi að spila á gítar. Það var líka notaleg stund. Þær hafa alveg svakalega flottan efri sópran (að neðri sópran ólöstuðum auðvitað) sem framkallaði gæsahúð á köflum. En ég er hins vegar svo sparsöm á Heims um ból að ég vil helst ekki heyra það fyrr en á jólunum. Ýmsar útsetningar skemmtilegar, ég held til dæmis mikið upp á Slá þú hjartans hörpu strengi, síðan ég heyrði Óbóið spila það með kirkjukórnum hér um árið. Núna var það gítarkvartett sem spilaði undir og það kom glettilega vel út. Prýðis gott. En ég dreif mig náttúrulega strax heim til að ná Eli Stone. Maður missir nú ekki af þætti sem skartar „special appearance by George Michael“…  Enda var hann bara skemmtilegur og ég horfði líka óvart á þátt sem hét Carpoolers og hann kom líka á óvart. Þetta var nota bene eina kvöld vikunnar þar sem ég var ekki að vinna, svo það var vel nýtt í misfína menningu 😉 .