Kaup dagsins

Nú er allt að gerast í fararskjótamálum. Mummi keypti sér hjól á laugardaginn, af Erasmus skiptinema svo hjólið var sótt á kollegie – þar fékk undirrituð opinberun. Sem hún stóð og þakkaði í huganum fyrir að vera ekki að fara að búa á Görðum áttaði hún sig á að hún verður algjör gamla í hópnum, innan um smákríli rétt skriðin yfir tvítugt. Það var nett áfall. 🙂 Mummi prófaði þarna tvö hjól og keypti annað þeirra. Við tókum síðan krók niður í bæ og hittum fyrrum vinnufélaga Mumma og fjölskyldu og náðum einni ísferð, þaðan var farið til að sækja nýja fararskjótann sem Mummi hjólaði á heim.

Í gær fórum við svo og skoðuðum hjólakerru handa Skottunni sem okkur leist ógurlega vel á. Til marks um það hvað ég er að verða dönskumæĺt sagði ég Mumma að húsið væri númer sexogþrjátíu. Kerran var hin fínasta en komst hins vegar ekki í bílinn og beið því betri tíma því við vorum á leið til Álaborgar (eða nánar tiltekið smábæjarins Vilsted) þar sem Ellen, fyrrverandi vinnufélagi Mumma býr. Hún var búin að bjóða okkur í heimsókn, Mumma til skrafs og ráðagerða og okkur svona í leiðinni. Mættum þangað í danskan frokost, alveg hreint dásamlegan. Mummi og Ellen áttu svo vinnustund en við mæðgur dunduðum okkur á meðan. Fengum síðdegishressingu og fórum síðan í gönguferð í kring. Hún er með frábært útsýni, býr við vatn sem er nýbúið að veita í aftur, eftir að hafa verið þurrkað upp fyrir löööngu síðan. Þegar hún flutti hafði hún útsýni yfir tún og símastaura og tré en því var fórnað og núna er þetta bara eins jógatími að sitja á svölunum hjá henni (það blés að vísu svo hressilega í gær að það var ekki beinlínis setið úti á svölum). Vorum líka boðin í kvöldmat og dagurinn hefði verið hinn fullkomnasti ef Skottan hefði ekki tekið upp á því að hrynja niður stiga (við það að elta Sóleyju). Hún fékk laglega byltu og heljarinnar blóðnasir og var frekar lítil um stund á eftir. Gestgjafarnir Ellen og Holger voru miður sín og vildu helst að farið yrði til læknis en foreldrarnir voru alveg rólegir enda jafnaði daman sig og var farin að hlaupa og ólmast eftir smá stund, þó nefið væri aumt lengur (og maður frekar ólánlegur í dag með skrámu undir nefinu).

Í dag fór ég svo hjólandi til að sækja nýju kerruna. Það var heilmikið púl, 7.5 kílómetrar og stór hluti upp í móti, en þar af leiðandi ósköð þægilegt á heimleiðinni. Kerran er hin fínasta og nú á bara eftir að græja hjálm á feðginin og þá er okkur ekkert að vanbúnaði. 🙂 Verðum ekki öllu danskari. Kennitölurnar eru þó ekki komnar enn og ég farin að óróast því Sóley á að byrja í skólanum á miðvikudag og ég veit ekkert enn svo ég sendi tvo illa tölvupósta í dag, einn á borgaraþjónustuna og annan í skólann hennar Sóleyjar (sem enn hefur ekki svarað bréfi sem ég sendi í júlíbyrjun, svo það er spurning hvort ég neyðist ekki til að hringja).