Klaufabárðarnir

Ég nefndi í síðustu færslu hvað Sunna flaug snilldarlega niður stiga svo eftir blæddi. Hún var með mjög snyrtilegt sár fyrir neðan nefið og náði í gær að fljúga á hausinn eftir að príla upp á stól og lenti að sjálfsögðu á nefsárinu svo það rifnaði upp. Við erum farin að íhuga að láta hana ganga með hjálm eða aðrar hlífar svo sárið sé ekki komið til að vera.

Það eru fleiri klaufabínur á heimilinu, ekki þó þannig að það hafi orðið stórslys. Neibb, nú er það húsmóðirin sem brýtur glös við öll tækifæri sem gefast og ef hún er ekki að brjóta glös þá tekur Skottan það að sér. IKEA ferð er fyrirsjáanleg til að bæta eigendum hússins skaðann. Við mæðgur erum búnar að stúta 5 glösum hingað til, ég held að það séu fleiri glös en hafa brotnað á jafnmörgum árum heima hjá mér (og þá eru það yfirleitt aðrir en ég). Mummi heldur því fram að ég sé enn að læra á húsgögnin. Ég vona að minnsta kosti að þetta sé að fjara út, það er komin vika síðan síðast.

Sóley hefur alveg sloppið við slys, nema auðvitað átökin við brenninetlurnar. Hún hefði átt að byrja í skólanum í dag en kennitölurnar voru loks að koma í hús og vonandi fer því eitthvað að gerast. Ég sendi þeim tölvupóst á mánudaginn og fékk ekkert svar um hæl svo við fórum í ferð þangað í gær. Þá var auðvitað starfsdagur og enginn við sem gat sagt okkur neitt. Hún heldur auðvitað að það sé vafamál hvort hún fái að fara í skóla yfirleitt.

Annars hefur hún staðið sig með mikilli prýði. Hún sinnir systur sinni yfirleitt vel (þó henni finnist Sunna vakna of snemma á morgnana) og þær hafa til að mynda farið margar ferðir í rólurnar, sem eru reyndar bara 10 metra frá útidyrunum okkar og blasa við úr borðstofunni. Hún er farin að æfa sig aðeins í dönskunni, las til dæmis fyrir mig á dönsku í gær og eins og ég sagði henni þá yrði ég ánægð sem kennari ef nemendur mínir væru allir að minnsta kosti jafn góðir og hún í framburði. Annars er hún orðinn heitasti Rocky Horror aðdáandi heimilisins og eflaust þótt víðar væri leitað. Hér er hlustað á lögin úr leikritinu allan sólarhringinn og sungið með af ástríðu. Ég veit ekki hvað nágrannakonu okkar þykir um Rocky Horror en hún fær tónlistina að minnsta kosti beint í æð þessa dagana.