Baráttan við skrifræðið

Jæja, langþráðar kennitölur komu í pósti nokkrum mínútum eftir síðustu færslu. Hófst þá umsóknarferlið mikla. Ég fékk hringingu frá skólanum hennar og fékk að vita að ég fengi tölvupóst þar sem væri skjal sem ég þyrfti að fylla inn upplýsingar um Sóleyju. Það gæti ég sent til þeirra um hæl og síðan myndi kennarinn hennar hafa samband og boða okkur í viðtal. Svo liðu nokkrar mínútur og þá fékk ég tölvupóst um að það væru tæknivandamál og ekki hægt að senda þetta skjal í tölvupósti og að ég fengi það sent í sniglapósti. Þá svaraði ég og sagðist frekar vilja sækja þetta skjal og fylla það út í skólanum til að spara tíma. Ég fékk leyfi til þess, renndi niður í bæ og græjaði þetta þar (reyndar var búið að loka skrifstofunni en ritarinn sem hafði spjallað við mig deginum áður reddaði mér). Upplýsingarnar sem ég þurfti að gefa hefði ég leikandi getað sent í tölvupósti en það var greinilega ekki í boði að hafa það svo óformlegt, það var jú til sérstakt eyðublað fyrir þetta. Svo nú bíðum við enn eftir að kennarinn hringi í okkur og vitum því ekkert enn um hvenær daman byrjar. Það var þó staðfest að hún verður flutt fram og til baka í leigubíl og má fara í frístund í hverfisskólanum ef hún vill.

Síðan var það litla daman. Það er ekki hægt að sækja um pláss á netinu nema maður hafi rafræna undirskrift og það tekur nokkra daga að fá svoleiðis svo ég fyllti bara út umsókn á gamla mátann og sendi í pósti. Bíð eftir staðfestingu á móttöku. Þessa umsókn mátti reyndar líka senda í tölvupósti en það kom bara hvergi fram á hvaða netfang ætti þá að senda hana. Afskaplega gáfulegt sem sagt.

Bankamálum reyndum við að redda í gær. Það er alveg glatað að hafa ekki Dankort, hér taka flestar búðir aukagjald þegar maður borgar með útlensku korti og þá er nú tilboðssparnaðurinn manns fljótur að fara. Ódýrustu bensínstöðvarnar taka heldur ekki annað. Við mættum í bankann sem leigusalarnir okkar höfðu mælt með. Pínulítill, bara með útibú í bænum. Það var einn kúnni inni fyrir utan okkur. Samt gat þjónustufulltrúinn ekki gengið í þetta af því að það var svo mikið að gera. Hún boðaði okkur í viðtal og það gat gengið á mánudag. Svo fengum við tölvupóst með upplýsingum um það sem við þurftum að taka með. Nota bene, þetta er bankinn sem við ætlum að biðja um að geyma peningana okkar. Það sem við þurfum að koma með er afrit af skattframtali, launaseðlar síðustu þriggja mánaða, yfirlit yfir föst mánaðarleg útgjöld, útprentað reikningsyfirlit, auk passa eða annarra persónuskilríkja. Mér finnst þetta óskiljanlegt, ég sendi henni póst og spurði hvort þetta væri virkilega nauðsynlegt, við værum jú ekki að fá lánaða peninga en jú, þetta þarf þegar er verið að stofna okkur sem kúnna. Argh. Mér er skapi næst að athuga annars staðar.