Loksins rann upp tívolídagur

Langþráður dagur hjá Strumpunni að kvöldi kominn, við búin að eyða deginum í Djurs sommerland. Fórum með rútu í morgun með nágrönnum okkar en áttum að öðru leyti engin samskipti við þá fyrr en á heimleiðinni. Strumpan náði að fara í allt sem hugann girntist, nema auðvitað krúnudjásnið, sjálfan Piraten. En það voru aðrir rússibanar, þrír vatnsrússíbanar af mismunandi stærðum og gerðum, sem hún fór í með okkur foreldrunum til skiptis, og svo einn alveg ágætur, þrátt fyrir að vera meinlítill, sá kallast Þórshamar. Að auki fór hún í báta, bæði hjólabát með pabba sínum og „flúðasiglingu“ með mér, einn fallturn með mér sem leit út fyrir að vera alsaklaus en þegar ég var komin upp fannst mér nóg um og skildi í raun ekki hvernig ég fór að því að fara í Gullturninn fyrir 10 árum. Hún fór ein í þrjú andstyggileg tæki, eitt þeirra eru sæti sem hanga niður úr keðjum (þó ekki í sömu hæð og Himmelskibet í Tívolí) og Örninn, sem bæði snerist og sveiflaðist og síðan í áttavillta skipið sem sömuleiðis snýst í hringi og vaggar. Ég saknaði þess ekki að fara ekki með. Svo voru líka trampólín, kóngulóarnet og klifurbraut. Skottan fékk reyndar lítið að gera, þó var þarna stubbaland fyrir þessa minnstu. En ef maður miðar við hvað hún er fíkin í rólur þá hefði það hitt svo vel í mark að við hefðum ekki átt afturkvæmt svo það fór svo að henni var ekki hleypt að neinum tækjum.

Það var þokkalegasta veður á okkur, sólarlaust og hefur eflaust hangið í 20° þegar heitast var. Hins vegar skildi ég ekki í þeim sem lögðu í vatnslandið, svo indælt var veðrið nú ekki. Að hætti Dana höfðum við með okkur nesti en það dugði skammt fyrir svona langan dag svo við þurftum að kaupa okkur aukabita og svo hinn skylduga ís, vinir mínir Benni og Jenni eru með útibú þarna. Við lögðum íann heim um sex, þá settist hjá Strumpunni stelpa sem er jafngömul henni, en reyndar ekki í hverfisskólanum svo þær kynnast víst ekki þar. En ég held að hún hafi líka verið hálf lömuð eftir að sitja undir dömunni minni tala endalaust alla leið, á milli þess sem hún sýndi önnur skemmtiatriði (það vakti mikla lukku í rútunni þegar hún bretti upp á augnlokin á sér). Ég þurfti svo að þýða það mikilvægasta svo að eitthvað af flaumnum skilaði sér alla leið. Það er spurning hvort María vilji eiga eitthvað saman að sælda við þetta skrýtna ofvirka barn sem hún sat hjá! Við enduðum á því að borða hjá vini okkar MC enda ekkert til í kotinu og engin orka til að elda.

Í gær fórum við á bókasafnið hér í Egå, það er reyndar frekar lítið en hægt að fá millisafnalán eins og maður vill og má skila hjá þeim líka. Það gekk líka svona vel, við tókum öll bækur sem á annað borð erum læs. Strumpan fékk sér Harry Potter og Fönixregluna, bæði sem hljóðbók og lesbók, Mummi fékk sér Stieg Larson og pantaði hljóðbók með, ég fékk mér bókina um hana Ellen 100 ára, sem var þáttur um á DR fyrir einhverju síðan. Það var krúttleg kelling og frábært að lesa um hana enda kláraði ég bókina strax. Mín bíður svo krimmi líka, nýjasta Sara Blædel.

Ég kom svo við í útibúi Danska bankans og spurðist fyrir um að fá Dankort þar. Það reyndist ekki vera í boði en hins vegar máttum við gerast kúnnar og fá Mastercard án þess að skila neinum pappírum svo ég sendi um hæl póst á þjónustufulltrúann í Lánum og sparnaði og afþakkaði viðtalstímann þar. Við gerumst væntanlega kúnnar Danska bankans á mánudag.

Þess má geta að við hjóluðum þetta, loks voru allir komnir með hjálma og Skottan fékk að prufukeyra hjólakerruna. Það vakti ómælda lukku og Strumpunni fannst við hjóla heldur stutt, enda voru þetta ekki nema tveir kílómetrar, það tók sig varla að fara á hjóli. Þarf að henda inn eins og einni mynd af hjólafjölskyldunni við tækifæri.