Mánuður í fyrirheitna landinu

Afmælisfærsla, aðeins í seinna fallinu. Í fyrradag vorum við búin að vera einn mánuð í DK og sló ég þar með gamalt met. Áður hafði ég mest verið 24 daga (held ég), árið 1994. Og hvernig er svo nýja lífið? Eins og lesendur hafa glögglega tekið eftir þá finnst mér hægagangurinn hér frekar mikill. Hafði þó búið mig undir að hlutirnir myndu taka lengri tíma en maður er vanur og það var ein ástæða þess að við fórum af stað með löngum fyrirvara, fimm vikum áður en nokkuð færi af stað hjá mér. Ég hélt í sakleysi mínu að það myndi duga, amk þannig að Strumpan yrði komin í skóla, kannski ekki að Skottan yrði komin á leikskóla, en að það væri þó komið í góðan farveg.

Nú hefur fátt gerst í þessum málum, þó fékk ég loks símtal frá skóla Strumpunnar í morgun og við förum í viðtal á morgun. Með Skottuna er allt óvíst, okkur barst þó bréf þess efnis að hún fengi í síðasta lagi pláss 1. nóvember!  Ég byrja í skólanum næsta mánudag, eða fer sem sagt í kynningarviku, mér sýnist þó að ég þurfi ekki að sinna henni 100%, býst til dæmis við að sleppa öllum kvölduppákomum. Það er því lán í óláni að Mummi er enn bara í tímabundnum verkefnum sem taka bara þann tíma sem þarf. Bankamálin hafa svo gengið betur en á horfðist í fyrstu, Danske bank á reyndar eftir að senda okkur kortin en það tekur vonandi ekki óratíma.

Og er þá eitthvað sem undirrituð er ánægð með? Mummi spurði mig að þessu í fyrrakvöld og svarið var sem betur fer jákvætt. Það er einkum tvennt sem stendur upp úr. Annars vegar er dönskunördinn ég í alsælu. Það er dásamlegt að hafa svona óheftan aðgang að unaðslegri dönsku alla daga. Nokkrar sjónvarpsrásir, bókasafnið á heimilinu, áskriftin að Politiken sem ekki er runnin út enn og svo þetta frábæra bókasafn hér í bæ. Ég veit að ég á eftir að fá fráhvarfseinkenni þegar áskrift þeirra hjóna að Pol lýkur. Þar er endalaus uppspretta góðra greina og enginn bölmóður (nema hann sé þar sem ég fletti yfir). Blaðamennirnir kryfja ýmis mál, þeir fara dýpra í það sem hæst ber úti í heimi en skrifa líka athyglisverðar pælingar um það sem er á döfinni innanlands. Það er orðinn algengur frasi á mínu heimili … það var svo góð grein í Politiken um…. Síðan er það auðvitað það að vera allt í einu að nota dönsku til allra hluta. Þurfa að segja alls konar hluti sem maður hefur aldrei gert áður. Finna leiðir til að spyrja um eitthvað sem maður veit alls ekki hvernig á að orða.Inn í þetta allt fléttast síðan léttirinn yfir að vera ekki að fylgjast með fréttum á Íslandi….

Hitt sem stendur upp úr var eitthvað sem ég sá auðvitað að einhverju leyti fyrir, meiri samvistir fjölskyldunnar þegar er ekkert annað sem tekur tíma frá manni (sjáum svo til hvernig fer með námið þegar þar að kemur). Við erum búin að vera stanslaust saman í mánuð. Ég sinni dætrunum mest yfir daginn, er ekki með endalausa skemmtidagskrá því þær sjá auðvitað um sig sjálfar líka en það er gripið í bók og spil á hverjum degi. Síðan tekur Mummi við og svo eyðum við kvöldinu oftar en ekki í að spila við Strumpuna. Og þetta er ljómandi fínt. Þolinmæðin er reyndar mismikil og stundum er eins og maður sé staddur á samkomu ofvirkra en þrátt fyrir það er þetta betra en ég bjóst við.