Svíþjóðarpistill

Þegar á mann er skorað verður að bregðast hratt við. Erum stödd í hábæ Dalanna, Säter og verðum hér fram á föstudag. Það er sem sagt kartöflufrí í hámarki og við nýtum það svona líka vel með því að heimsækja ættingja í norðri. Hófum ferðina á föstudag, sigldum frá Árósum til Odden og keyrðum síðan í sumarbústaðinn og gistum þar eina nótt. Keyrðum svo til Stokkhólms (ökuferðin gekk vonum framar með aftursætisfarþegana og leiðin ný fyrir okkur og mjög svo falleg á köflum) og vorum hjá Sigga og Sigrúnu fram á þriðjudag. Áttum þar góða daga, að mestu leyti í rólegheitum en fengum okkur þó gönguferð niður í Gamla Stan og versluðum á Drottninggatan, maður verður nú að styrkja Svíana. Systur heilluðust mjög af Wii og fengu báðar að grípa í leiki. Hér í Säter eru svipuð rólegheit, þ.e.a.s. bara verslað „lítillega“, annað ekki gert. Ég segi ekki að þetta verði söguleg Svíþjóðarferð, svona verslunarlega, en veskið hefur verið viðrað af og til. Höfðum gælt við að fara í sund í Borlänge, þar er prýðileg sundlaug sem við Strumpan fórum í 2005 en það kostar hins vegar 250 krónur fyrir okkur þar inn svo það verður að bíða betri tíma. Við förum svo heim á leið á föstudag, þá verður maraþonkeyrslan mikla, keyrt til Varberg og þaðan siglt til Grenå, þar sem við komum í höfn síðla kvölds. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer.

Október hefur að mestu verið með ágætum, þó það hafi komið nokkur þunglyndismóment yfir náminu. Ég lauk fyrsta hópverkefninu áfallalaust en er í valkvíða með efni fyrir stóru ritgerðina mína. Mig langar að skrifa um eitthvað sem tengist Íslandi en ég vil ekki að orðið krísa komi fyrir … Svo mætti ég á fyrsta fredagsbarinn minn og það var ágæt reynsla, frekar róleg samt þar sem ég sat frá hálf fjögur til fimm og drakk mína tvo bjóra. Börnin sem eru með mér í skólanum eru samt alveg ágæt miðað við aldur og fyrri störf svo það er yfirleitt gaman að spjalla við þau.

Hjá Strumpunni var hátíð í skólanum. Allir í bekknum áttu að koma með mat, við mættum með skyr og rjóma. Það féll í ágætan jarðveg. Svo var töframaður og dans og dömunni fannst þetta feikilega gaman, það spillti þó aðeins fyrir að móðirin hafði ekki rænu á að koma með spariföt og að við vorum ekki allt til loka en Skottan var að stíga upp úr veikindum og ekki alveg upp á sitt besta, sömuleiðis var Mummi lasarus og ekki von að við entumst allan tímann.

Skottunni fer ekki síður fram í dönskunni en Strumpu. Nú notar hún óspart ja og nej, auk þess að kveðja (og heilsa) með hej hej. Sömuleiðis á hún víst að kunna að segja leverpostej en hefur ekki fengist til þess fyrir framan fjölskyldumeðlimi. Hún kann einnig að segja hjem. Það er ekki hægt annað en kætast yfir þessu. Talið kemur hægt og bítandi en vantar enn ansi mörg hljóð. Hún kann þó að segja s þegar hún vandar sig og getur orðið sagt ssssss óley og ssssss unna en vantar aðeins upp á tenginguna. Snuðið heitir Muuu …. 🙂

Látum gott heita frá Sverige og biðjum að heilsa í bili.