Afmælisstuð

Þá er indælisdagur að kveldi kominn í henni Danmörku. Skottan orðin tveggja ára og mun sennilega hvorki eiga rólegri afmælisdag né hlýrri í bráð. Hún var vakin með söng í morgun eins og hefð er fyrir á heimilinu og kættist mjög. Var varla komin fram úr þegar hún heimtaði graut og verandi afmælisbarn gat móðirin ekki neitað henni um það, þótt það sé bæði leiðinlegt og subbulegt (þ.e.a.s. þegar barnið borðar grautinn). Daman fékk síðan að opna einn pakka (eða reyndar tvo því eins og stundum áður þá komu pakkar í fleirtölu frá Svíþjóð). Móðirin misskildi aðeins seinni pakkann, hann innihélt dádýrskálf (altså en død én) en mamman hélt að þetta væri bara svona svakalega ljótur köttur og talaði fjálglega um kisa. Það gekk ekki vel að leiðrétta þennan misskilning, svo líklegast mun dádýrið heita Kisi.

Skottan átti góðan dag hjá Mariane, það var flaggað fyrir henni að dönskum sið, hún fékk afmælisbollur og svo var að sjálfsögðu sungið, bæði „I dag er det Sunnas fødselsdag“ og „happy birthday to you“. Hún virtist vel með á nótunum í þessu öllu og samgrísirnir hjá dagmömmunni agalega sáttir að fá bollur. Þegar hún kom heim fékk hún auk þess vöfflur með kaffinu, þær renna alltaf ljúflega niður enda vel smurðar með hvítri smurolíu 🙂 . Þegar Strumpan kom heim var lagt í að opna pakkana og þær sátu saman og opnuðu sitt á hvað. Það voru komnir pakkar frá afa og ömmu í Holtateigi og Öddu ömmu og Gylfa afa, auk pakka frá okkur. Þetta var mikið stuð og pakkarnir vöktu allir lukku hver á sinn hátt.Eftir smá skype-session drifum við okkur út að borða, eins og stundum áður á McDonalds og afmælisbarnið fékk hollan og góðan kvöldverð sem samanstóð af frönskum og shake. Enn meira skype eftir mat og svo bæl.

Annars var undirrituð í hópvinnu í morgun og kom svona líka sterk inn í tæknideildinni, kenndi hópnum sínum að nota google docs. Gamla er með þetta 😉 . Ætli kennaragenið komi ekki líka að góðum notum í næstu viku þegar við kynnum verkefnið, ég vona að minnsta kosti að ég verði ekki mjög stressuð að tala fyrir framan hópinn. Það er helst þessi enska sem stundum bögglast á leiðinni. Á mánudaginn talaði ég til dæmis um many sprogs…

Ég var svo á LC fundi í gær, geri reyndar fátt annað, því einn fundur er varla liðinn þegar næsti brestur  á. Fékk einmitt það hlutverk að tala um eitthvað „aktuelt“. Það þvældist aðeins fyrir mér af því að ég hef svo lítinn tíma til að lesa blöð og horfa á fréttir. Datt loks inn á að tala aðeins um Christianiu, sem varð 40 ára á mánudaginn. Þetta var bráðhollt, ég ákvað að tala blaðlaust en setti niður nokkra minnispunkta heima til að hugsa aðeins um hvað ég gæti sagt. Þetta verður minn aðal dönsku-vettvangur held ég, þarna þarf ég bæði að tala og hlusta og finn talsverðan mun á mér eftir þessa þrjá fundi. Ég hafði líka íhugað að tala um sjónvarpsseríur, af því að DR er 60 ára og er að sýna gamalt efni. Mér datt í hug að það gæti verið gaman að tala um Matador og það hefði verið skondið því það kom svo í ljós að ein í hópnum er barnabarn Ghitu Nørby (sem lék einmitt Ingeborg svo snilldarvel).

Á morgun er von á Arndísi vinkonu Strumpunnar í heimsókn og þetta er á við litlu jólin, svo mikil er tilhlökkunin. Það á að vera sumarblíða fram á sunnudag, ég sem hafði skipað eiginmanninum að ganga frá garðstólunum því það yrðu ekki not fyrir þá meira þetta haustið en í dag fór hitinn yfir 20°.