106902661543560925

Loksins kom svona ekta helgardagur, þar sem var ekkert stress og æðibunugangur. Tókum loks af skarið með að festa upp krækjur í þakskeggið fyrir komandi jólaseríu. Það hefur staðið til ansi lengi og tók ekkert langan tíma þegar það var gert. Í leiðinni sinntum við smá vetrarverkum, sem hefði mátt gera fyrr, settum inn hjólin og garðhúsgögnin. Gott að vera búinn að því.

Lentum í vöfflukaffi hjá tengdamömmu, ekki ónýtt það. Sóley er alltaf að fá að smakka góðgæti, um síðustu helgi voru það pönnukökur í lange baner og nú vöfflur. Það veitir ekki af því hún er í fitubúðum. Já, Fat camp er orðið að nýju hugtaki. Núna er það notað um litlar stúlkur sem bæta ekki nógu hratt á sig. Svona er það. Mér finnst Sóley ljómandi braggarleg og það gekk ágætlega að gefa henni að borða. Svo kemur þessi Salómonsdómur í ungbarnaeftirliti, hún er ekki að fylgja sinni kúrfu, gjöra svo vel að fita barnið. Þannig að það eru máltíðir allan daginn núna, og matartímar hafa breyst í tortúr, þar sem henni er gefið að borða eins og einhverjum aligrís og ekki hætt fyrr en flæðir út. Nú á að skora feitt.
Bjarni kom svo í mat í Fat camp en slapp betur en Sóley. Hálfgerður jólailmur í húsinu samt, hér var eldaður léttreyktur hryggur og minnir á gamla tíma. Mummi gerði tilraun að hætti Jóa Fel og eldaði nautalundir í Teriyaki sósu í forrétt.

Besti bitinn fór samt í Prins Valíant. Það átti nefnilega að gera vel við dömuna í Fitubúðunum og við keyptum lambalund. Geri ég þá ekki þau leiðu mistök að gleyma lambabita, nota bene hráum, uppi á bekk. Svo heyrir Mummi urr og hvæs úr eldhúsinu og þá var það Prins að vernda bráðina fyrir aggressívum köttum. Og þá var ekki hægt að bjóða fröken upp á hana, svo kettirnir (lesist: Prins) fengu lambalund í kvöldmat. Það reddaðist þó með dömuna því það leyndist annar biti inni í ísskáp.

Sunnudagskvöld eru bestu kvöld vikunnar. Það eru nefnilega Nikolaj og Julie kvöld hjá mér og Kristínu. Sannkölluð dönskunördakvöld. Þættirnir tóku nýja og óvænta stefnu í kvöld og ekki gott að segja hvernig fer í lokaþætti þessarar seríu næsta sunnudag. Það verður auðvitað að halda lokahóf til að slútta þessu almennilega. Pabbi hennar Kristínar var í heimsókn og þess vegna teygðist á heimsókninni. Hann hefur nefnilega gaman af því að spana mann út í rökræður og ekkert nema gaman að því. Svo viðkvæmu málin voru aðeins rædd í kvöld, trúmál og miðlar og sýndist sitt hverjum. Mummi hefði sómt sér vel í þessum hóp.