Ég hef varla farið út úr húsi í dag. Vissulega þessa daglegu göngu (þegar veður leyfir) með fröken og svo smá skrepp, en annars einn af þessum dögum þar sem maður er algjör innipúki. Hafði mig upp í að senda kennaranum mínum bréf í dag og tilkynna um að ég væri hætt. Þá er öllu fargi af mér létt í sambandi við námið. Það er alveg ótrúlegt hvað mér finnst ég vera frjáls núna. Eiginlega skrýtið, því ég sinnti náminu aldrei á daginn en það munar að það hvíli ekki á manni að maður eigi eftir að gera eitthvað. Og nú get ég horft á sjónvarp án samviskubits. Ég er að verða hinn mesti sjónvarpspúki. Á mánudögum er það Survivor alveg fast. Eins og flestir aðrir held ég mikið upp á Rupert en hins vegar er það algjör nýlunda að það eru margir aðrir sem ég get unnt þess að vinna. Eiginlega líkar mér bara illa við Jon, svo eru nokkrir á gráu svæði, en ég kann mjög vel við Lill, Rubert, Söndru og Christu, og í raun ágætlega við Burton. En ég get varla gert upp á milli Ruperts og Lill, þau eiga bæði skilið að vinna. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu þetta tekur.
Ég fékk heimsókn í dag og það telst til mikilla tíðinda. Kristín kom með Svein Áka, langt síðan börnin okkar hafa hist þó svo við séum í Nikolaj og Julie klíkunni. Sveini Áka leist vel á margt dót og skoðaði margar bækur af áhuga og tók held ég sýnishorn af flestum dýrahljóðunum sínum. Það flottasta var án efa fíllinn, enda fæst börn sem taka hann. En honum var ekkert alltaf vel við Sóleyju. Framan af var hún í göngugrindinni og var hvað eftir annað nánast búin að aka hann niður. Þegar hún hætti í grindinni vildi hann gjarnan fá smá salíbunu í henni en er líklega of stór. Samt hefði verið gaman að sjá það. Þegar hann fór heim kyssti hann Sóleyju bless og það var skandall að hafa ekki myndavélina tilbúna því þetta var ósköp sætt. Það lá líka við að hún kyssti á móti en svo var meira freistandi að klípa í hann og reyna að ná bókinni sem hann var með.
Og svo fékk ég líka Eyþór frænda í heimsókn. Hann er að fara í dönskupróf. Og þar sem við náðum svo góðum árangri síðast (hann fékk 9.8 þegar ég aðstoðaði hann í haust) þá kom hann aftur til að taka þetta með trompi. Arnheiður kom með og Sóley var í sínum versta ham og gólaði bara á hana. Hún er að verða svolítið uppástöndug, en það var reyndar gífurleg seinnipartsþreyta í henni og hún fór reyndar í rúmið upp úr sjö og var sofnuð hálf átta. Svo það er ekki von að maður láti eins og flón.