Þannig fór nú það. Þeir sem ekkert vilja vita um Popppunkt stoppa að lesa hér – má halda áfram við greinaskilin. Annað laugardagskvöldið í röð endar þátturinn á bráðabana og hljómsveitin, sem ég held með, tapar. Bömmer. Annars skil ég ekki doktorinn með liðinn „hljómsveitin spreytir sig“. Hann er ekki að höndla að gefa mismörg stig nema í afar fáum tilfellum og því finnst mér þetta detta um sjálft sig. Kannski að hafa þetta sem almennan skemmtihluta, en ekki til stiga. Í kvöld var Trabant með ljómandi útgáfu á „Spáðu í mig“ á meðan Risaeðlan var með glataða útgáfu á „Higher and higher“, það eina sem bjargaði henni var frábært flautusóló.
Fyrst ég er á annað borð að ræða sjónvarp, verð ég að kommenta aðeins á ídólið í gær. Ég skil ekki þá keppni þar sem Alma Rut kemst ekki áfram. Ég skildi það ekki í fyrri þættinum sem hún var í og hvað þá í gær. Vissulega er Jón Sigurðs geðugur náungi en Alma var margfalt flottari. Ég er mjög spæld. En núna þegar allir keppendurnir í lokahópnum eru komnir áfram þá er kannski hægt að fara að spá í lokin. Ég sé Önnu Katrínu og Helga Rafn pottþétt vera til loka, hugsanlega verða það bara þau tvö sem keppa til úrslita. Kalli sjómaður fer sennilega langt en dugar ekki. Vala dettur frekar snemma út því hún er svo umdeild, þó mér finnist hún flott. Ætli Blönduóss-pían detti ekki fyrst út?
Í dag fórum við í ekta sveitahlaðborð hjá ömmu hans Mumma. Þá er ég að tala um kleinur, soðiðbrauð, vöfflur, muffins, döðlubrauð, marmaraköku og gulrótarköku. Við hefðum varla þurft að elda kvöldmat en höfðum samt ótrúlega stjórn á okkur. Sóley fór á kostum. Það var nefnilega allt stútfullt af krökkum, fimm stykki, öll fjögurra ára og yngri. Hamagangur á Hóli. Hún fór, með aðstoð pabba síns, í eltingarleik og skemmti sér konunglega.