Úlfur er farinn að sýna ansi merkilega matarhegðun. Hann hefur alltaf verið meiri þurr-kisi en fær sér svo sem af blautmatnum og öðru góðgæti líka. Núna hef ég ítrekað séð hann róta þurrmatnum upp úr dallinum fyrst og borða hann svo af gólfinu. Hreinsar voða vandlega allt í kringum dallinn og rótar svo upp úr aftur. Annars er stórskrýtið með þessa ketti. Þegar þeir fá einhvern alveg sérstakan mat, til dæmis fiskstykki, þá virðist alltaf vera nauðsynlegt að borða hann á miðju gólfinu, helst stofugólfinu. Eins og gefur að skilja er það mér til mikillar gleði. Ég skúra víst svo sjaldan að gólfin mega ekki við þessu.
Svo er víst alveg voða músafaraldur hérna núna. Það komst mús inn í næstu íbúð en dó þar áður en þurfti að grípa til örþrifaráða. Ættin hennar hélt greinilega eitthvað partý á pallinum þar líka, það var víst allt útatað í sporum. Needless to say þá stöndum við ekki í þessum sporum. Vei þeirri mús sem álpaðist hér inn. Það yrði ljótur dauðdagi. Kannski maður fari að hleypa köttunum meira út til að saxa á fjöldann?
Söru-árstíminn mun bráðum ná hámarki. Það saxast jafnt og þétt á þær og mér sýnist á öllu að við þurfum jafnvel að baka viðbót. Gerum það pottþétt ef Anna systir kemur, það veitir ekki af allri hjálp sem býðst.
Fékk eitt ljómandi símtal í kvöld. Fjölnir minn elskulegi gamli vinur, nú orðinn virðulegur prestur í Eyjum hringdi alveg hreint upp úr þurru. Úff hvað það er alltaf hressandi að tala við hann. Feels like old times. Hann er svo fyndinn, svona náttúru-húmoristi. Það veltur alltaf eitthvað sniðugt og skrýtið upp úr honum. Hann stendur sig náttúrulega vel að boða fagnaðarerindið til þeirra Eyjamanna og ég efast ekki um að hann gerir það á sinn ljómandi sérstaka, skemmtilega hátt. Ég auglýsi eftir svona presti hingað.
Ef þið viljið gleðja einhvern, sem þið þekkið, alveg ógurlega mikið, hringið þá svona surprise símtal. Þau standa alltaf fyrir sínu. Og ætli það séu ekki fleiri en ég sem hugsa reglulega til gamalla vina – eða nýrra vina – og síðan ekki söguna meir. Ótrúlegt hvað maður getur verið latur að hringja. Það er auðvitað frægt að allir eru hættir að fara í heimsókn en ég held að það séu margir líka hættir að hringja og senda tölvupóst. Það er mjög auðvelt að gleyma sér í letinni.