107031341804883955

Kannski ráð að fylgja honum Hjörvari í fordæminu með jólagjafalistann. Ég var nefnilega að lesa plötutíðindin um daginn og kremaði þar yfir ansi mörgu. Það var helst nostalgíufílingurinn sem var að fara með mig og þess vegna ekki hægt að segja að þetta væri kannski útpæld gæðatónlist sem ég var að spá í. Fyrstir á blaði eru auðvitað Rikshaw, ég meina, hver man ekki The Great Wall of China? Ótrúlega gott lag. Síðan komu aðrir spámenn, ekki endilega minni, svo sem Bon Jovi með tónleikadisk minnir mig, að minnsta kosti eitthvað sem ég á ekki. Úr íslensku deildinni væri ég jafnvel til í Margréti Eir og svo veit ég ekki nema Svörtu fatadrengirnir væru bara ágætir. Eða kannski er það bara ég að reyna að halda í horfna æsku.

Þarna var líka DVD deild. Þar var aðallega tónlist að heilla mig, Queen myndbönd, Rammstein og fleira. Kannski ekki must have en alla vega must see.

Í bókadeildinni er náttúrulega fátt góðra drátta, svona þannig. Ég er nefnilega farin að aðhyllast bókasöfnin æ meira og það gildir um marga bókina að hún er meira svona must read heldur en must have. Ég er alla vega ekki með ævisögur fræga fólksins á óskalistanum. En á móti kemur að engin eru jólin án bóka, ég er enn föst í þeirri stemmingunni. Ég man hér um árið, þegar ég úthlutaði flestum í fjölskyldunni einhverja bók til að gefa mér, það fer reyndar um mig hrollur þegar ég rifja upp titlana – mig minnir að þetta hafi verið Fimmtán ára á föstu, Viltu byrja með mér og svo eitthvert góðgæti frá Bodil Forsberg og Erling Poulsen, fyrir utan hefðbundnari barnabækur. Ég var nefnilega ekki nema 9 ára þegar ég fór að liggja í ástarsögunum og hef blessunarlega þroskast síðan þá (er ekki Ísfólkið annars skref upp á við?)
Önnur jól grét ég úr mér augun fyrir jól vegna þess að ég hafði svo þungar áhyggjur af því að fá ekki Maddit í jólagjöf, mig minnir að mamma hafi svo séð fyrir því að hún kæmi í pökkunum svo það yrði einhver jólagleði það árið. Já maður hafði sínar leiðir.

Svo er það nú þannig, að þegar maður er kominn með unga þá finnst mér í góðu lagi að gjafirnar til mín minnki í ákveðnu hlutfalli. Það er að minnsta kosti enginn í kringum mig sem skítur pening í þeim mæli að ég ætlist til þess að ég sé efst á lista yfir þiggjendur. En engu að síður, ef þið rekist á góða dragt eða fína skólatösku, þá er ég opin fyrir þiggjanda-hlutverkinu.