107029177002592419

Bíóferðin í gær var alveg ljómandi góð. Mæli óhikað með Nemó og eins og venjulega sveik Pixar ekki með góðri stuttmynd á undan og smá gríni á eftir (ekki þó „deleted scenes“). Og svo að Mummi geti hætt að gera grín að mér með Sea Lions þá er ég búin að ná nafninu – loksins – hún heitir víst Second Hand Lions. Það er enn smá krísa hvort við förum líka að sjá hana, hún tapar eflaust ekki miklu við að bíða til myndbands en við tökum hins vegar spólur á svona fjögurra mánaða fresti núna.

Óli var með nostalgíufærslu í gær um laufabrauðið. Ég skal alveg viðurkenna að ég fæ svona kast í hverri laufabrauðsgerð því einhvern veginn er hún ekki svipur hjá sjón. Þetta var svo mikil hátíð hérna í denn í Stekkjargerðinu, þegar við vorum öll. Sérstaklega keppnirnar um hver skæri út flestar kökur og skipti þá engu máli hvernig útkoman var eða hvað maður gerði. Enda var iðulega rokið út í stafrófið til að þurfa örugglega ekki að eyða dýrmætum tíma í að úthugsa kökurnar. Svo held ég að við höfum átt eina alveg sérstaka köku, einhvern veginn minnir mig að Dúddi hafi byrjað á henni. Við gerðum alltaf jólaherðatré. Enn þann dag í dag geri ég jólaherðatré til að minnast gömlu daganna. Svona er lífið, allt er breytingum háð en þá má notast við lítil brot af gömlum venjum til að tengjast aðeins því gamla.
Enn rifja ég líka upp grobbsögurnar af Gunnlaugi langafa, sem var færasti laufabrauðsútskurðarmaðurinn í Svarfaðardal og þótt víðar væri leitað. Það sagði afi að minnsta kosti og ekki laug hann! Kannski rifjast fleira upp fyrir mér á laugardaginn þegar ég fer í laufabrauð í Akurgerðinni.