107300204433277425

Sóley byrjaði nýja árið af krafti. Ákvað að vakna klukkan fimm í morgun, sannfærð um að það væri kominn dagur og því verulega móðguð yfir öllum tilraunum til að bæla hana niður aftur.
Ég kemst alltaf betur og betur að því að ég hef lítið mótstöðuafl þegar svefninn minn er tekinn. Ég verð frekar tæp á geði og Mummi má þola ýmislegt því ég reyni að hlífa Sóleyju eins og mest ég má við geðvonskunni. Mummi fór að lokum með hana fram og gaf henni morgunmat og fljótlega eftir það var hægt að fá hana til að sofna. Hún vaknaði aftur klukkan hálf tíu og þar sem ég var búin að taka að mér fyrstu vakt fórum við á fætur. Þannig að ég var búin að ná sirka tveggja og hálfs tíma svefni. Ég fékk svo að leggja mig aftur um hálf tólf og svaf til tvö. Eins gott því dagurinn hefði verið hræðilegur annars. Mikið er ég heppin að eiga ekki barn sem er óværara en Sóley. Nógu finnst mér þetta slæmt.

Að öðru leyti var þetta hefðbundinn Nýársdagur. Fórum í kaffi í sveitina. Sóley fór á kostum þar hjá langöfum sínum. Var virkilega hin hressasta. Þaðan fórum við til tengdó enda Mummi búinn að taka að sér eldamennsku á nautalundum sem Kittý vann. Hann var sveittur í eldamennskunni, enda þurfti hver að fá nautið matreitt eftir sínu höfði. Maturinn var góður en afskaplega óformlegt borðhald því það reyndist ómögulegt að koma því við að allar steikurnar væru tilbúnar á sama tíma.

Mummi fór svo í spil í kvöld en ég tók því rólega hér heima, við lestur (ég er enn að lesa sömu bók en greip líka í Ísland í aldanna rás). Og nú á að taka nóttina snemma!