Fyrsti leshringurinn minn var í kvöld. Við hittumst á Sigurhæðum, þetta voru mestmegnis kennarar úr VMA, að auki María sem einu sinni var húsbóndi á Vistinni og maður hennar. Umræðuefnið var, eins og ég nefndi hér um daginn, færeyskur krimmi, Ljúf er sumarnótt í Færeyjum. Það var nánast ófært í Sigurhæðir, ég fór leiðina út frá kirkjutröppum og hrundi einu sinni glæsilega, þó ekki alla leið niður brekkuna, þökk sé grindverkinu sem lafir þarna. Gaman að koma inn í þetta hús, þar hef ég ekki komið áður. Því miður sá ég samt bara efri hæðina, ég labbaði aðeins niðri líka en gat ekki kveikt ljós svo það var varla að ég sæi neitt.
Ef ég kemst að efninu þá er skemmst frá því að segja að þetta var alveg frábær kvöldstund. Eiginlega skil ég ekkert í mér að hafa ekki látið verða af því að reyna að hóa í svona hóp, nógu oft hef ég hugsað um það. Við vorum tíu, mér finnst það nokkuð hæfilegur fjöldi, það er eiginlega hvorki gott að vera mjög fáir né margir. Bókin var rædd óformlega, höfðum nokkra punkta á blaði til að styðjast við. Allir voru sammála um að aðall bókarinnar væri færeyska stemmingin.
Næst á dagskrá er Svíinn Henning Mankell. Wallander hinn frægi. Ekki nóg með að við lesum bók eftir hann, við ætlum líka að horfa á þætti gerða eftir bókinni sem Sjónvarpið er að sýna um þessar mundir. Ég hlakka mikið til næsta fundar. Þetta er líka hæfilega oft, einu sinni í mánuði.
Það eina sem mér fannst skrýtið var að allir hinir virtust algjörir krimmafræðingar. Ég sem les bara einstaka krimma og er í raun í klúbbnum á fölskum forsendum (til að vera í leshring, ekki til að lesa krimma) var alveg eins og bjáni þegar þau komu inn á hina og þessa höfunda. Einn af fáum sem ég þekkti með nafni var Alistair MacLean og ekki hef ég lesið hann.
Annars var fitumælingin langþráða í dag. Okkur til gríðarlegra spælinga virðast fitubúðirnar fyrst og fremst hafa virkað á foreldrana. Sóley hefur þyngst um svo sem eins og hálft kíló, ég býst við að mín kíló séu fleiri!! Betur má ef duga skal. Nú eigum við að bjóða upp á smjör og rjóma í öll mál, liggur mér við að segja. Það skiptir greinilega engu máli ef maður á kátt barn sem borðar vel, ef það er ekki eftir línunni þá er eitthvað að.
Við erum að hugsa um að svindla samt á þessu með bílstólinn. Huggum okkur við það að eins og hún er dúðuð þessa dagana slagar hún upp í níu kílóin. Það er að minnsta kosti varla forsvaranlegt að hafa hana í hnipri í ungbarnabílstólnum sínum.
Það kom líka upp að hún er með exem. Ég sem hef fagnað hverjum degi án eyrnabólgu og asma. Gleymdi alveg að spá í þetta. Tók svo sem eftir blettum á handleggjunum á henni, hélt að þetta væru bara einhverjir þurrkblettir. Nú eigum við að eitra fyrir henni með því að bera á hana sterakrem. Ég er bara passlega lukkuleg með það.
Skoðunin gekk samt vel, þrátt fyrir þessa Stórudóma. Hún var ósköp ljúf að láta pota í sig og dundaði sér kát með leikföngin á meðan við biðum (sem var um klukkutími allt í allt.)
Við slaufuðum líka sundinu, fyrsti tíminn eftir jól átti að vera í dag, en af því að hún er enn með hornös og hósta ætlum við að bíða aðeins lengur.