Jógamamman

Jæja, mætti loks í jóga eftir langt hlé. Fyrst á mánudag og svo aftur í kvöld. Strengirnir eftir mánudagsjógað svona passlega farnir að dofna þegar ég mætti aftur. Þetta form er alveg voðalegt með að hrapa niður eftir ekki lengri tíma en mánuð. Ég var alveg miður mín báða þessa tíma eftir svona hálftíma jóg, lá við að ég legðist grátandi á mottuna. En það er bara harkan sex sem blívur. Verst að Helga hefur gríðarlegt uppáhald á Stólnum og Engisprettunni þessa dagana. Ekki mínar bestu stöður.

Sóley átti erfiðan dag á mánudag. Ég ákvað nefnilega að rölta með hana á nýju snjóþotunni í heimsókn til ömmu sinnar. Ferðin var ljómandi skemmtileg framan af. Misgóð færð á leiðinni. Henni fannst til að mynda ógurlega fyndið þegar ég óð snjó upp að hnjám af því að ég ákvað að taka stuttu útgáfuna af leiðinni. Heldur kárnaði gamanið þegar hún fór fram af smá snjóbing og lenti á hvolfi. Þá gólaði mín. Ég skóf snjóinn framan úr henni og eftir smá stund var hún búin að ná sér.
Tók þá ekki bara verra við. Mamman vitlausa var ekki með hugann við verkið og litla fröken lenti á hlið og var dregin þannig áfram þangað til mamman tók eftir bældum kvörtunum! (Jæja, kannski ekki svo slæmt, en sagan er næstum alveg rétt.) Sem betur fer var þetta rétt áður en við komum til tengdamömmu þannig að hún komst í hús og fékk knús og samúð hjá ömmu sinni þegar hún kvartaði hástöfum yfir meðferðinni. Sóley fór svo með pabba sínum aftur í dag í sama ferðalag og gekk það heldur betur.

Litla frökenin var annars sérlega kát í morgun. Hún vaknaði til að drekka rúmlega fimm og var sett aftur upp í rúm að sofa. Það lá hins vegar svo vel á henni að hún spjallaði við sjálfa sig góða stund. Um sex vakti hún svo foreldra sína með mótmælaópum. Þá stóð í rúminu og var líklega í sjálfheldu, ekki viss hvernig væri best að setjast aftur og hrópaði þess vegna á aðstoð (eða á athygli og klapp eins og á sunnudag…) Ég lagði hana aftur og þá sofnaði hún um leið. Og eins og stundum áður, þegar það er pabbi sem má lúra með henni, svaf hún vært til hálf níu.

Þessir dagar eru í raun algjört bíó. Það er varla hægt að horfa á hana öðru vísi en í krampakasti. Nú er hún að uppgötva tunguna og togar í hana í tíma og ótíma. Svo þegar maður hlær að vitleysunni í henni spanast hún öll upp, hlær þessi ósköp og er að rifna af monti yfir að vera svona fyndin.