Ný og áður óþekkt færni

Já, tími kraftaverkanna er ekki liðinn. Haldiði að ég hafi ekki splæst mér í 2000 króna saumavél í dag í Rúmfatalagernum, keypt mér efni í eldhúsgardínur (lesist; tilbúnir kappar) og saumað eins og ég hafi ekki gert annað. Nú er ég kominn með nýju gardínurnar upp, og ef þær væru ekki svona andsk illa saumaðar væri ég bara allt að því montin. Jæja þá, ég er montin, þrátt fyrir saumaskapinn. Enda skrifast hann alfarið á dósina, hún er ekki til stórræðanna. Það er hins vegar í góðu lagi ef ég get ruslað upp gardínum svona af og til, fer ekki fram á meira.

Smá afsökun með bloggletina. Þetta er eiginlega ekki bloggleti heldur blogggleymska. Ég ætlaði til dæmis að blogga um Survivor í gær (kannski að bera í bakkafullan lækinn, það er sjálfsagt annar hver maður að skrifa um Survivor) en sem ég sat í tölvunni og fór yfir fjarkennsluverkefni, datt það alveg úr mér.

Þar af leiðandi á stuttlegu nótunum um þáttinn í gær. Hann lofar ansi góðu. Það eru margir þarna sem ég kann gríðarlega vel við. Það eru tveir sem eiga verulega skilið að vinna að mínu mati. Annars vegar Rupert, af eðlilegum ástæðum, maðurinn er einfaldlega flottastur. Hins vegar Colby, sem tók Ástralíu seríuna með trompi, valdi Tinu með sér í lokahópinn og tapaði (en hefði annars valið einhvern síðri, man ekki hver það var). Annars eru fáir þarna sem mér líkar illa við, þekki auðvitað ekki fólkið úr fyrstu seríunni, nema Ríchard, af því að ég sá ögn af endursýningunni, og það þýðir ekkert annað en að hafa gaman að honum. Svo skil ég ekki alveg af hverju Amber er þarna. Eins leiddist mér alltaf Jerri. Að öðru leyti er ég frekar kát.