Það barst í tal í skólanum í dag hvað Walking with Dinosaurs væri góður þáttur. Ég kom þá með játningu að horfa afskaplega lítið á RÚV (mér telst til að það sé um það bil Frasier og einstaka brot af Spaugstofunni, svona meðan ég bíð eftir Popppunkti) þrátt fyrir að horfa töluvert mikið á sjónvarp. Einhver hafði orð á að það væri bara svo lélegt efni í boði á hinum stöðvunum og þá varð ég auðvitað að viðurkenna að það væri einmitt þetta lélega efni sem ég væri að horfa á. Ætli mörgum þætti ekki Ædol flokkast undir þetta (og ég þarf varla að velta því fyrir mér með Svínasúpuna). Að vísu virðist lygilegasta fólk horfa á sorpþætti. Þannig var aðal umræðuefnið gærdagsins á kennarastofu D-álmu fyrsti þáttur Boston Public. Það telst kannski ekki með því það er svona „professional interest“, maður er jú alltaf að reyna að læra 🙂 Þess vegna bíður Mummi alltaf eftir sápu um tölvunarfræðinga.
Á menningarlegri nótum: Ég byrjaði að lesa Öxina og jörðina í gær. Það verður gaman að sjá hvernig hún reynist.