Ég og titlar…

Já, ég ætti ekki að skrifa neina titla hérna nema hafa viðkomandi bók / mynd mér við hlið. Fyrst var það Sea Lions myndin mín sem hét svo fyrir rest Second Hand Lions, síðan var það „The Battersea Park Road to Enlightment“ sem ég endurskírði eitthvað annað, og nú síðast er það Kurt Wallander. Ég er með sænska titilinn á hreinu greinilega. Það upplýsist hér með að bókin sem ég var að lesa í krimmahringnum (nú fer ég og sæki hana til öryggis…) heitir Á villigötum en á sænsku Villospår. Þar hafið þið það.

Ég var sem sagt að koma af krimmafundi og þessi annar fundur okkar krimmanna var síst síðri en sá fyrsti. Bókin náttúrulega meiri háttar (ég hafði hana loks af í gærkvöldi) og svo er bara alveg frábært að velta sér upp úr bókum í svona hóp. Enn finn ég svolítinn vanmátt, þegar er vitnað í hina og þessa, þetta er allt forfallið glæpafólk með mér, svei mér að lögreglan fyrir austan skuli ekki hóa í þau. Það var mikið vitnað í blaðamannafund gærdagsins og hvernig hann væri eins og klipptur út úr Wallander. En ég sé að ég verð að fara að lesa meira. Sennilega er hann Arnaldur bara efstur á blaði, við munum líklega lesa Bettý í vor og spurning hvort ég ætti ekki að vera búin að lesa eitthvað annað áður. Eitthvað hef ég lesið, hvort það voru Dauðarósir, ég þori ekki að fara með það.
Eftir tvær vikur ætlum við að hittast og horfa á seríuna eftir bókinni en það er nýbúið að sýna hana á RÚV. Svoleiðis þættir fara nú ævinlega fram hjá mér, eins og ég horfi mikið á sjónvarp.

Verð að koma að einni kisusögu í lokin. Ég var búin að spá mikið í þvottinn minn, sem hangir á innisnúrunni minni, svona týpísk innigrind, nema hvað hún er há og mjó. Hann var nefnilega gjarnan dreifður út um allt eða lufsaðist að minnsta kosti bara einhvern veginn á snúrunum. Hafði kettina grunaða (kemur á óvart) en skildi samt ekki hvernig þeir færu að þessu. Kom svo að Skessu í gær, þar sem hún lá í makindum sínum ofan á snúrunni. Greinilega nýi besti staðurinn. Og þvotturinn greinilega allur í hönk af því að hún spígsporaði ofan á honum. Ótrúlegir þessir bjánar!