Er Laddi fyndinn?

Ótrúlegt en satt, þetta var eitt af heitustu umræðuefnunum bæði kvöldin í Reykjavík. Það vill þannig til að Helgi mágur minn stendur í þeirri meiningu að Laddi sé gríðarlegur snillingur og þessari skoðun deildu Siggi og Sigrún (altså mágur og mágkona). Við Mummi reyndum að koma vitinu fyrir þau á föstudagskvöldið en greinilega án árangurs, að minnsta kosti kom þessi umræða aftur upp í gærkvöldi, nema hvað þá var Helgi borinn ofurliði, því Óli var í heimsókn og deilir skoðun okkar hjóna. Getur annars einhver nefnt eitthvað fyndið sem Laddi hefur gert eftir 86 eða svo? Hann gat ýmislegt fyrir það en sumir þekkja bara ekki sinn vitjunartíma.

Ferðin var annars mjög góð. Það bar helst til tíðinda að við versluðum óvenju lítið að þessu sinni. Fórum til að mynda ekkert í Kringluna. Fórum reyndar aðeins á bókamarkað (eins og hann sé ekki hérna líka…!) og hittum reyndar Ernu Erlings sem reyndi allt hvað hún gat til að heilsa ekki. Keyptum aðallega bækur handa Sóleyju (að minnsta kosti undir þeim formerkjum, hún á kannski ekki eftir að lesa Ævintýrabækur Enid næstu árin…)

Heimsótti í raun flesta sem voru efstir á blaði. Önnu og Benna, Árnýju og Hjörvar, Sigrúnu (sem gaf mér ógnarfínt Latte enn og aftur), Unni (stuttlega) og að sjálfsögðu litlu frænku. Líka í mýflugumynd. Það átti að skíra hana á laugardag en hún var með gulu og ekki alveg nógu hress svo það bíður betri tíma. Hún er agnarlítil og voða gaman að máta hana.

Sóley var í sínu besta formi í flestum heimsóknunum, reyndi að vísu aðeins að pota í litlu strumpu, ég meina, hver er munurinn á henni og kisu eða dúkku? Alltaf gaman þegar barnið manns virkar eins og ljúfasta hnáta. Sem var ekki tilfellið á heimleiðinni í dag. Hún var ekkert voða hress að vera í einangrun í aftursætinu og svona frá og með Norðurárdal (syðri – svaf fram að honum) og að Blönduósi (þar sem hún sofnaði aftur fáeina metra frá bænum og hafði af mér tertuna sem ég ætlaði mér á „Við árbakkann“ þar sem ég reyni að stoppa ævinlega til að fá dýrindis tertu) var hún frekar spæluleg. Líklega sprungin á limminu að vera góð því hún var alveg yfirnáttúrulega góð á suðurleiðinni og yfirleitt í allri Reykjavíkurferðinni.