Jamm, í gærkvöld voru Litlu Ólympíuleikar Tölvumynda (sem eru árvissir en ekki á fjögurra ára fresti). Eins og búast má við, þegar maður fer á djammið með jafn fínu liði og góðum frændgarði og ég bý að í vinnunni hans Mumma, þá var þetta ljómandi fín skemmtun. Það kom að vísu í ljós enn eitt árið að ég kann ekki bobb og mun aldrei ná neinni leikni í að spila það, eins eru hæfileikar mínir í þythokký minni en ég vildi. Hins vegar kom ég sterk inn í golfi (fór holuna á 10 höggum) og í pílu, en það var verra með húllað en gamli stærðfræðikennarinn minn, hann Sigvaldi malaði mig í því. Það er sárt að tapa í húlla fyrir karlmanni, en helmingi verra þegar það er gamli stærðfræðikennarinn manns!
Farbror Willy fór á kostum í sænskunni og var jafnvel ofvirkari á myndavélinni en Óli og Mummi til samans, en hann virtist hafa mestan áhuga á að ná miðhluta karlmannanna á mynd og svo stöku auga og handlegg hér og þar. Bjarni dansaði, sem mér finnst teljast til tíðinda, mér telst til að hafa séð það einu sinni áður, en þá dró ég hann út á dansgólfið. Þarna dansaði hann af sjálfsdáðum (kannski má ég ekki einu sinni blogga um það? – þetta gæti verið eitthvað tromp sem hann vill luma á seinna meir.) Það sem meira var, um tíma vorum við tvær dömurnar að dansa við fjóra karlmenn, ég hef ekki lent í svona hlutfalli á dansgólfinu áður.
Ég ákvað í gær að á næstu Ólympíuleikum verð ég ekki ólétt, með barn á brjósti eða í aðhaldi (það voru hamborgarar í matinn, dettur ykkur nokkuð í hug að Mummi hafi verið í skemmtinefndinni?)
Í dag var ég svo á dönskukennaranámskeiði, kannski hljómar það ekki skemmtilega en það var ótrúlega gaman. Ein af þessum stundum þar sem maður nennir gjörsamlega ekki fyrirfram, en svo er ótrúlega gaman þegar maður er kominn á staðinn. Og fyrir þá lesendur mína sem vita hver Steina gamla bekkjarsystir er (hinn dönskukennarinn úr 4.B) þá upplýsist að hún er ólétt og væntir sín í ágúst.
Nú er ég með litla frænda í fóstri. Eyþór minn (sem er víst orðinn 14 ára) hefur gist reglulega í gegnum tíðina, mér finnst hálf trist að það fer væntanlega að síga á seinni hlutann á gistinóttunum hans. Enda fær hann lúxusgistingu í nótt, venjulega hefur hann fórnað sér á sófann í stofunni en núna fær hann uppbúna flatsæng inni í herbergi og hótanir um að þurfa að taka við strumpu strax í fyrramálið með leiðbeiningum um hvernig maður sýður hafragrautinn. Ekki seinna vænna en að fara að innheimta gamlar skuldir!