Við erum öll búin að næla okkur í hið árlega vorkvef. Hóstum, hnerrum og sjúgum í nefið hvert í kapp við annað. Setti svolítið strik í reikninginn um helgina því það var ómögulegt að leggjast í heimsóknir og bera þrefalda smitið um allt. Ég þrælaðist samt í leikfimina á laugardaginn, erfitt var það. Mér leið eins og hérna í gamla daga í leikfimi að hlaupa úti í kulda, þegar maður finnur kuldann nísta alveg niður í lungu. Ég virðist vera að koma til samt því tíminn í kvöld var ekki eins erfiður. Aftur vigtun. Árangur síðustu viku verður auðvitað seint toppaður, núna voru farin 800 grömm, þar af cirka helmingur fita (mér líður eins og Gauja litla að vera að auglýsa þetta fyrir alþjóð, ekki víst að maður verði jafn glaður að auglýsa þegar árangurinn verður minni…)
Annars gleymdi ég að segja frá því að við hjónin vorum með sænska kvikmyndahátíð á laugardagskvöld, horfðum á mynd sem heitir Adam og Eva og systir var svo elskuleg að senda okkur í tilefni afmælis dótturinnar. Það kom nú heldur betur í ljós að ég er ekki eins altalandi á sænsku og ég hélt. En ég hélt þræðinum og gat hlegið af og til. Maður hefur gott af því að æfa sig, veitir ekki af fyrir sænsku sumarbúðirnar.
Við Mummi eigum svo afmæli í dag. Það eru átta ár síðan við kynntumst. Lifi 22. Time flies.