He-man

Af því að maður er nú kominn á kaf í fjölskyldupakkann datt ég inn á barnaefnið í morgun og haldiði ekki að það hafi verið He-man þáttur? Það lá við að ég fyndi spólu og byrjaði að taka upp fyrir Óla. Loksins komin réttlæting fyrir öllum Stöðvar 2 þúsundköllunum! Vakti meira að segja Mumma (sem átti fyrstu vakt í morgun og svaf á meðan þessu stóð) til að sýna honum. Þetta var reyndar ekki einn af gömlu þáttunum, maður sá það vel, en samt býsna líkt. Þarna sá maður alla gömlu kunningjana, He-man sjálfan, Teelu (hét hún það ekki örugglega) Man at Arms, Granger (að sjálfsögðu) og svo þá illu, Skele-tor, Evil-Lyn, Trap-Jaw og hvað þeir hétu nú allir. (Ehemm, það mætti halda að ég hafi verið 6 ára strákur þegar þetta æði hófst en ég hef þá afsökun að ég neyddist oft til að leika við litla bróður…) Og að sjálfsögðu endaði þátturinn á heilræði frá Adam. Ég mun fylgjast með þessu næstu sunnudaga.

Í dag fékk svo litla frænka nafn. Hún heitir Sigríður Fjóla, eins og litla stóra systir. Fínasta nafn og verður bara betra með árunum, eftir því sem hún stækkar og passar betur „í“ nafnið. Ég hef örugglega áður tjáð mig um þá ömurlegu íslensku tísku að skíra einhverjum ónefnum. Þið afsakið öll sem eruð að spá í, eða hafið nefnt börnin ykkar einverjum skrautnöfnum, þetta er ekki minn smekkur. Í sundinu eru til dæmis Natalía Nótt, María Mínerva (mér finnst Mínerva svo sem ágætt en voðaleg samsetning) og Björgvin Tristan (Tristan er eitt af þessum nöfnum sem mér finnst bókstaflega leka væmnin af). Þannig að ég er alltaf voða glöð fyrir hönd barnanna ef þau fá eitthvað eðlilegt íslenskt nafn. Það var nú í DV í gær (eða Fréttablaðinu í dag…?) að það væri botninn að heita Óli af því að maður gæti einhvern veginn ekki vaxið upp úr því, þetta kom frá Huldari Breiðfjörð.

Annars var ég blaðburðastúlka í forföllum í gær. Eyþór fór sem sagt suður á skírnina og bað ekki um afleysingu í tæka tíð svo ég bjargaði honum. Ég tók fyrstu götuna með Sóleyju í kerrunni, það var ekki ljóst hvor okkar var pirraðri þá götu því Sóley gólaði út í eitt (að minnsta kosti þær stundir sem ég labbaði frá henni og að húsunum) svo ég skilaði henni til tengdamömmu. Enda tók það mig næstum klukkutíma að bera út þessa götu (Suðurbyggð). Hinar fimm tóku svona álíka langan tíma. Þetta rifjaði upp heilmiklar minningar frá því að ég aðstoðaði Unni við að bera út Dag. Ég stóð mig að því að standa fyrir framan ákveðna hurð og hugsa illar hugsanir af því að íbúinn sem bjó þarna um 85 var svo leiðinlegur (það gekk illa að rukka hann!). Samúð mín fyrir blaðburðabörnum Fréttablaðsins jókst mjög eftir þessa reynslu (Eyþór fær samt aðstoð frá foreldrum sínum svo ég vorkenni honum ekkert rosalega mikið!)