Krimmarnir

Þá var þriðja krimmakvöldið í kvöld. Að þessu sinni Elsku Poona eftir Karin Fossum. Það var full langt síðan ég las hana og sennilega hef ég lesið hana mjög hratt líka því ég var ekki alveg með smáatriðin á hreinu. En þannig var að hún greip mig mjög snemma og ég las fram á nótt því ég varð að klára hana. Það er nefnilega þessi aumingjans maður sem er aðalpersónan, ég vorkenndi honum alveg ógurlega. Það voru ekki allir sammála um ágæti bókarinnar samt, sumir höfðu meira að segja ekki náð að klára hana því þeir sofnuðu alltaf yfir henni! Hún fær mín meðmæli engu að síður. Mér bauðst að fá lánaða aðra bók eftir sama höfung á norsku (og sænsku reyndar, það bíður betri tíma) og ég þáði það, aðeins að dusta rykið af norskunni. Næst á dagskrá er svo danski höfundurinn en ég hef lesið þá bók áður, á dönsku, ætla núna að líta á hana á íslensku.

Við mæðgur vorum í sundi í dag. Sóley tekur stórstígum framförum. Nú er hún farin að synda um allt þegar hún fær armkúta og kippir sér ekkert upp við að gleypa svolítið sundvatn. Hún hoppaði líka út í laug (kannski hljómar þetta meira en það var, hún sat í efstu tröppunni og hlunkaði sér fram af, en hún fór á kaf) og ég var svo montin að ég lét hana endurtaka það tvisvar.