Það er lægð yfir landinu. Að þessu sinni bara farin 200 grömm (reyndar 400 fitugrömm, ég er að verða ansi mössuð…) Þetta gengur víst í bylgjum. Enn stefni ég að því að missa 10% af líkamsþyngd en það verður að segjast eins og er, að það markmið fjarlægist heldur. Það kannski bjargar því sem bjargað verður að það er engin veisla (að mér vitandi) framundan.
Ég sukkaði nefnilega hressilega í fermingarveislunni hans Ögmundar í gær. Kökusjokk. Okkar framlag var best, verst að mega ekki taka afgangana að sér, þeir voru hálf munaðarlausir heima hjá tengdamömmu.
Svo erum við Sóley búnar að finna dagmömmu. Hún heitir Ráðhildur (gangi Sóleyju vel að læra að segja það) og býr á okkar gömlu slóðum, í Akurgerði 3A. Við fórum í heimsókn í dag og engum leist illa á neinn svo þetta var fastsett. Stúfan mun því mæta í aðlögun svona eins og aðra viku af ágúst.
Það styttist í brúðkaupshátíðina miklu þann 14. maí. Umsóknum í danska klúbbinn rignir inn, nú vilja allir vera með. Það verður skoðað gaumgæfilega, enda ekki hægt að hleypa hverjum sem er að í svona eðal hóp. Ég verð passlega komin úr megrunarsóttkvínni, svo nú er bara að vera til með kampavín og tertu!