Er ekki blogg alveg kjörinn vettvangur til að segja frá hversu bráðþroska barnið manns er. Við Strumpa vorum í mat hjá tengdamömmu í kvöld. Tengdamamma á bók úr litlubókaseríunni með öllum klassíkerunum (Stubbur, Stúfur og þær) sem heitir Svarta kisa, sem hún les gjarnan fyrir Sóleyju og hún er farin að taka virkan þátt með því að svara fyrir öll dýrin sem vilja ekki gefa kisu mjólk að drekka. Nema hvað, í dag fór Sóley að lesa bókina sjálf fyrir frændsystkini sín. Það rann upp úr henni bullið, það eina sem skildist var þegar hún sagði neineineineinei þegar hún svaraði fyrir dýrin. Við fullorðna fólkið sátum og bældum niður fliss til að trufla ekki lesturinn.
Hún er líka farin að tala alveg óskaplega mikið. Nú er aðal sportið að endurtaka (nema að sjálfsögðu ef á að sýna hvað maður er flinkur) og í dag sagði hún Hafdís, meira að segja ótrúlega vel. Það hjálpar reyndar að vita hvað hún er að segja.
Afrek dagsins var að þvo bílinn sem var skítugur af svarfdælskum skít eftir hina árlegu ferð okkar systra í Dalinn í síðustu viku. Svarfdælskt ryk virðist vera þrjóskara en annað ryk, að minnsta kosti var óvenju erfitt að ná skítnum af. Spurning hvaða kenningu afi hefði komið með við þetta tækifæri.