Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2004

Draumahúsið fundið

Jamm, við fórum að skoða hús í fyrradag í Möðruvallastræti. Nema hvað, ég fékk alveg ægilega góða tilfinningu að fara þarna inn og nú er ég nett skotin. Vissulega er það ekki fullkomið, meðal þess sem ég gæti nefnt er að það er ekki upphengt klósett og ég er líka mjög hlynnt því að hafa sjónvarpsherbergi. En það má horfa fram hjá þessu. Það þarf að minnsta kosti ekki að gera mjög mikið fyrir það. Garðurinn er algjörlega æðislegur. Full stór svo sem fyrir mína mjög svo ljósfölgrænu fingur en ég held að ég myndi vinna í því að verða meiri garðyrkjukona.

Við fengum konu að skoða hér í annað skiptið þennan sama dag. Hún virðist actually vera frekar heit en það strandar á einu mikilvægu, hún er ekki búin að setja íbúðina sína á sölu og sagðist einmitt ætla að gera eins og við, þ.e. að selja fyrst og kaupa svo. Þar af leiðandi sé ég ekki að það sé neitt að gerast þar.

Frekari fréttir færast hér inn nokkuð jafnóðum fyrir þá sem fylgjast æstir með húsamálum Hafdísar 🙂

Longlongtimeago

Svona líður tíminn hratt. Ég hef ætlað að blogga ansi lengi og hef haft margt að segja en einhvern veginn ekkert orðið af því. Þá lendir maður í krísu af því að manni liggur of margt á hjarta. Ég ætla að reyna eftir bestu getu að tæpa á því helsta, eins stuttlega og mér er unnt.

Í fyrsta lagi vorum við með Sigrúnu og Eric í heimsókn í einn og hálfan sólarhring eða svo. Sá tími gekk aðallega út á át, þannig að á föstudagskvöld (eftir að hafa farið á Bláu, Greifann og í Brynju…) elduðum við algjöra gourmet máltíð. Geðveika hörpuskel a la Sælkerabúðin/Mummi í forrétt, unaðslega nautasteik a la Mummi/Munkaþverárbelja og æðislegan eftirrétt a la Sigrún og Eric, balsamicjarðarber. Með þessu splæsti Eric dýrindis kanadísku rauðvíni, með því betra sem ég hef smakkað. Bjarni var með okkur í matnum og það verður að segjast eins og er að það jafnast fátt á við að borða góðan mat í góðum félagsskap.

Í öðru lagi er mikið útivistarátak í gangi. Ég reyni að fara í daglega göngutúra (þó ekki nema niður í bæ til að sækja bílinn…) og nú erum við líka búin að kaupa stól fyrir Sóleyju á hjólið mitt og fröken finnst alveg ævintýralega gaman að hjóla. Í gærdag fór ég með Sóleyju og afa út á Gáseyri. Það stendur alltaf fyrir sínu, þetta er staður sem á sér virkilegan sess í hjarta mínu og nú verður maður bara að vera duglegri að fara með Sóleyju. Hún fór með skóflu og fötu og skemmti sér konunglega við að moka sand, ýmist með skóflu eða höndum. Hún var orðin ein sandhrúga og ekki bætti úr skák að hún var aðeins að dýfa tánum í sjóinn. Hún varð ansi spæld að fara heim. Við fórum þaðan á kaffihúsið á Dalvík, en eins og allir vita er það í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég splæsti síðbúnu afmæliskaffi á afa, 85 ára afmæliskaffið hans var einmitt þarna fyrir réttu ári.

Í þriðja lagi er aðeins að lifna yfir húsnæðisskoðurum. Það kom kona í dag og par á sunnudaginn. Ekkert sem bendir til þess að það hafi skilað sér en í áttina samt. Við höfum ekkert skoðað meira en spurning hvort maður kíki aðeins meira í kringum sig.

Ýmislegt fleira mætti flakka með en best að reyna að hafa þetta ögn reglulegar og minna í hvert sinn…

Ekki fyrir viðkvæma!

Ég var að hugsa um að koma með ítarlegar lýsingar á skurðaðgerðunum sem ég var í í morgun, það var nefnilega verið að fjarlægja tvo fæðingarbletti af mér. Þeir voru báðir á frekar viðkvæmum stað svona blygðunarlega, annar á bossanum og hinn í náranum (engar nánari lýsingar svo það geti enginn hlaupið í fjölmiðla og sagst hafa sofið hjá mér og komið með lýsingar á fæðingarblettum því til sönnunar…) Sá á bossanum hefur fylgt mér alla ævi held ég, en annað hvort fór hann sístækkandi eða ég síminnkandi, að minnsta kosti var ég nánast farin að vega salt á honum. Hinn var nýtilkomin og þar sem ég fer reglulega í sjúkdómaleit á doktor.is leist mér ekkert á útlitið á honum. Núna er ég sem sagt tveimur fæðingarblettum fátækari. Get ekki sagt annað en ég hafi vorkennt aumingja Pétri og aðstoðarkonunni að þurfa að handleika afskorna fæðingarbletti sem eiga að fara í rannsókn. Mikið er gott að vera ekki læknir. Og lýsingarnar á aðgerðinni verða ekki nánari til að forða lesendum frá ógleði það sem eftir lifir dags.

Annars var ég að horfa á Ísland í bítið í endurtekningu og sá af tilviljun tvo kunningja. Það er þessi trúbadorakeppni í gangi og ég tók allt í einu eftir kunnuglegu fési, þá var það Bjartur vinur hans Sigga mágs. Hann var mjög góður að trúbadorast, eins og við var að búast, svo ég vona að hann vinni (ég sá ekki þann fyrsta en sá síðasti var sínu verri) og þá kemur hann aftur á morgun. Hinn kunninginn er meira svona gamall kunningi frá því fyrir tíu árum eða mannsævi eða svo. Ingvar Jónsson. Langt síðan ég hef séð hann eða heyrt (held reyndar að ég hafi síðast séð hann í sjónvarpi í ristilspeglun eða eitthvað álíka). Ingvar er TrúbadorINN með stórum staf og greini.

Vikulegir pistlar

Ég er ekkert að standa mig rosalega vel. Það er eins og ég sé mjög upptekin sem er auðvitað um það bil eins fjarri lagi og hægt er. Ekki það að það sé mikið að gerast en það var nú eitt að markmiðunum hjá mér, að skrifa þó svo að það væri allt á hversdagslegu nótunum.

-Tvennar hugleiðingar að þessu sinni. Annars vegar er það listinn góði (og það karlalistinn). Eins og menn muna var hann vandlega fullskipaður og í raun svo mjög að ég hefði þurft að fá aukalista einungis með Dönum. Nú bætist á varamannabekkinn hjá mér. Það rifjast alltaf einhverjir upp, en sem betur fer kandídatar sem eru fínir á varamannabekkinn og þurfa í sjálfu sér ekki inn á aðal-listann nema einhverjir hrökkvi skyndilega upp af þar. Varamennirnir eru tveir. Annars vegar Mark Wahlberg sem mér hefur lengi hugnast, hins vegar Will Smith, en hann var hjá Jay Leno í gær og var svona ljómandi hress og skemmtilegur og eins og allir vita, finnst mér fyndni ákaflega sexý – að minnsta kosti kemur Mike Myers mér ótrúlega sexý fyrir sjónir þrátt fyrir að vera ekki nein steríótýpa.

-Hitt málið á dagskrá í dag tengist Opruh þætti gærdagsins (endursýndum). Hún var að ræða kynlíf unglinga, og þar sem dóttir mín er verðandi unglingur, er málið mér mjög skylt. Umræðan var þannig að það fór vægast sagt hrollur um mig. Meðal annars að munnmök væru orðin svo sjálfsögð að það væri ekkert mál að totta næsta strák, þú þurftir ekki einu sinni að yrða á hann, hvað þá meira. Það var ítrekað að foreldrar ættu að vera duglegir að ræða málin við krakkana sína og það ekki bara seint og síðar meir á unglingsárum, heldur snemma svo þetta yrði sem eðlilegast. Ef þú tekur allt í einu upp á því sem foreldri að fara að ræða kynlíf við unglinginn fær hann bara kast og spáir í hvort það sé í lagi með þig. En ef þeir læra allt af jafnöldrum sínum þá er það náttúrlega alls kyns vitleysa sem er í gangi. Þannig að mér sýnist að fljótlega eftir að Sóley byrjar á leikskóla þurfi ég að fara að spyrja vikulega hvort einhver hafi verið að ræða eitthvað kynferðislegt á leikskólanum þann daginn. Jamm, ég kvíði unglingsárunum.

-Að öðru sjónvarpsefni í gær, Stöð 2 sýndi annars vegar Alf og hins vegar Perfect Strangers í gær. Talandi um húmor sem eldist ekkert sérstaklega vel (Balki; „Don’t be ridiculous“). En það var nett nostalgía samt að horfa á þættina.

Home, sweet home

Það er ekki að spyrja að því. Eins og það er nú gott að fara til útlanda þá er nú ansi hreint gott að koma heim. Jafnvel þó það bíði manns ógnarvinna við að ganga frá öllu góssinu sem maður sankar að sér.

Hvað skal segja um Danmerkur/Svíþjóðarferðina? Þetta var sennilega undarlegasta utanlandsferð sem ég hef farið í. Það sem ber hæst er að við náðum okkur öll þrjú í pest og vorum í misjöfnu ástandi allt fríið, hins vegar að veðrið hefði mátt leika betur við okkur. En jákvæðu punktarnir voru margir og stórir, þó svo þetta standi upp úr. Þar má telja;

– Það var óskaplega indæll staðurinn sem við gistum á í Danmörku. Mig minnir að ég hafi áður vísað á hann, en hann fær að minnsta kosti að fljóta aftur með. Ótrúlega fallegur staður, mjög rómantískt umhverfi og hefði bara getað verið betra ef veðrið hefði verið ögn hagstæðara. Ekki spilltu dýr bæjarins fyrir (þó svo Herra Geit hafi hvergi verið sjáanlegur), meðal annars voru þarna skemmtilegustu rollur sem ég hef séð, alætur miklar, svo minnti á Bakkaköttinn.

– Bærinn sem við gistum í fyrstu nóttina á Fjóni var líka mjög skemmtilegur, ekta lítill bær og hótelið gamalt og mikið af gömlum húsgögnum þar, meðal annars forláta skrifborð á herberginu okkar. Ekki spillti „talandi“ páfagaukurinn í anddyrinu fyrir.

– Ýmis aktivitet í Danmörku voru skemmtileg, ég hugsa að ég hafi oft á tíðum skemmt mér betur en dóttir mín. Mér fannst til dæmis voða gaman að koma í Legoland. Við fórum líka í skemmtilegan dýragarð, Givskud Zoo, en þar var veðrið aðeins að stríða okkur. Eins fórum við í Randers Regnskov, sem ég gerði reyndar fyrir þremur árum, það var ekki síðra núna.

– Verslunarferðir standa alltaf fyrir sínu. Að þessu sinni keypti ég fjórar danskar myndir á DVD, Zappa (gömul og góð – BA ritgerðin mín var um bókina), Rembrandt, Regel Nr 1 og Humørkortstativsælgerens søn. Bíð spennt eftir að geta hafið danska kvikmyndadaga aftur. Ég keypti líka geisladiska (til dæmis Shu-bi-dua, til að geta hlustað á Kylling og soft-ice) og föt á mig og stúfuna. Sóley fékk meðal annars gúmmístígvél með Bamse og Kylling. Mikil gleði yfir því.

– Sveitasælan í Blekinge er góð.

Ævintýrið náði samt hámarki þegar við komum heim, því þá fórum við á Metallicu. Gleði, gleði. Þó að þeir kæmu tvisvar á ári hingað myndi ég stefna á alla tónleika. Þeir rokka feitast.