Vikulegir pistlar

Ég er ekkert að standa mig rosalega vel. Það er eins og ég sé mjög upptekin sem er auðvitað um það bil eins fjarri lagi og hægt er. Ekki það að það sé mikið að gerast en það var nú eitt að markmiðunum hjá mér, að skrifa þó svo að það væri allt á hversdagslegu nótunum.

-Tvennar hugleiðingar að þessu sinni. Annars vegar er það listinn góði (og það karlalistinn). Eins og menn muna var hann vandlega fullskipaður og í raun svo mjög að ég hefði þurft að fá aukalista einungis með Dönum. Nú bætist á varamannabekkinn hjá mér. Það rifjast alltaf einhverjir upp, en sem betur fer kandídatar sem eru fínir á varamannabekkinn og þurfa í sjálfu sér ekki inn á aðal-listann nema einhverjir hrökkvi skyndilega upp af þar. Varamennirnir eru tveir. Annars vegar Mark Wahlberg sem mér hefur lengi hugnast, hins vegar Will Smith, en hann var hjá Jay Leno í gær og var svona ljómandi hress og skemmtilegur og eins og allir vita, finnst mér fyndni ákaflega sexý – að minnsta kosti kemur Mike Myers mér ótrúlega sexý fyrir sjónir þrátt fyrir að vera ekki nein steríótýpa.

-Hitt málið á dagskrá í dag tengist Opruh þætti gærdagsins (endursýndum). Hún var að ræða kynlíf unglinga, og þar sem dóttir mín er verðandi unglingur, er málið mér mjög skylt. Umræðan var þannig að það fór vægast sagt hrollur um mig. Meðal annars að munnmök væru orðin svo sjálfsögð að það væri ekkert mál að totta næsta strák, þú þurftir ekki einu sinni að yrða á hann, hvað þá meira. Það var ítrekað að foreldrar ættu að vera duglegir að ræða málin við krakkana sína og það ekki bara seint og síðar meir á unglingsárum, heldur snemma svo þetta yrði sem eðlilegast. Ef þú tekur allt í einu upp á því sem foreldri að fara að ræða kynlíf við unglinginn fær hann bara kast og spáir í hvort það sé í lagi með þig. En ef þeir læra allt af jafnöldrum sínum þá er það náttúrlega alls kyns vitleysa sem er í gangi. Þannig að mér sýnist að fljótlega eftir að Sóley byrjar á leikskóla þurfi ég að fara að spyrja vikulega hvort einhver hafi verið að ræða eitthvað kynferðislegt á leikskólanum þann daginn. Jamm, ég kvíði unglingsárunum.

-Að öðru sjónvarpsefni í gær, Stöð 2 sýndi annars vegar Alf og hins vegar Perfect Strangers í gær. Talandi um húmor sem eldist ekkert sérstaklega vel (Balki; „Don’t be ridiculous“). En það var nett nostalgía samt að horfa á þættina.